145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:48]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gerir ágætlega grein fyrir skilningi sínum á málinu og ég skil hvert hún er að fara. Hins vegar er það þannig að hér er enn við lýði ívilnunarlöggjöf sem ég er á móti, almenn rammalöggjöf um ívilnanir, og hingað til hafa stórfyrirtæki verið að sækja til Íslands til að fá ódýra orku. Ég er á móti þannig ívilnunum til slíkra fyrirtækja. Ég tel þetta ekki vera nauðsyn á þessum tímapunkti. Ég get vel skilið að á ákveðnu tímabili, þegar reisa þurfti línur umhverfis landið, hafi verið ágæt samlegðaráhrif með virkjunum og allt það. Nú er staðan sú að við erum búin að koma þessum innviðum upp og við eigum að fara að huga að því að breyta algjörlega um stefnu hvað þetta varðar.