145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til handa Landsneti til að reisa og reka raflínur frá Kröflu að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi.

Ég spurði hæstv. ráðherra um nokkur atriði í andsvörum og verð að segja að ég er ekki sátt við svör hennar og tel raunar mjög afdráttarlaust að frumvarpið brjóti í bága við Árósasamninginn, alþjóðasamninga og samninginn um evrópska efnahagssvæðið jafnframt. Ég vil líka nefna vegna þess að það hefur verið rætt að hér hafi orðið einhverjar þær breytingar á íslenskri náttúruverndarlöggjöf sem skili þessari stöðu, að það er ekki nýtt. Það er ekki nýlunda að hraun njóti verndar í náttúruverndarlögum. Landsneti mátti vera ljóst að svo væri og er því full ástæða til að átelja Landsnet fyrir að gera ekki ráðstafanir, draga lappirnar í þessu ferli öllu saman.

Í grundvallaratriðum er þessi tegund löggjafar ekki til sóma. Hér erum við að tala um sértæka löggjöf sem varðar bara eina tiltekna framkvæmd. Markmiðið með löggjöfinni er þar með að aftengja alla þá lagabálka sem í gildi eru gagnvart þessari tilteknu löggjöf. Þá erum við að tala um í raun og veru skipulagslöggjöfina, náttúruverndarlöggjöfina, löggjöf um sveitarfélögin og síðast en ekki síst stjórnarskrárákvæði um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Um þetta er fjallað lítillega í meðfylgjandi lögfræðiáliti, þ.e. sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ég sé mig tilneydda til að ræða þann þátt sérstaklega.

Í textanum frá lögfræðistofunni er farið sérstaklega yfir það sem fræðimenn og dómstólar hafa verið sammála um varðandi efnisinntak umræddrar greinar í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hefur efni greinarinnar verið lýst með þeim hætti að í henni felist í fyrsta lagi að stjórnarskrá mæli fyrir um tilvist sveitarfélaga, í öðru lagi að sveitarfélögin hafi sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hafi falið þeim og loks í þriðja lagi að þessi verkefni skuli afmörkuð af löggjafanum. Þannig þýðir það í óformlegra orðalagi að þetta fyrirkomulag verði ekki afnumið með lögum, þ.e. þetta stjórnsýslustig sé til, það eigi að hafa tiltekin verkefni og um það hafi sveitarfélögin sjálfstæða stöðu.

Hér er látið að því liggja að það frumvarp sem hér er undir falli undir þann skilning stjórnarskrárákvæðisins að löggjafinn geti afmarkað verksvið sveitarfélaga með sértækum hætti. Þarna tel ég frumvarpssmiði vera á villigötum og lögfræðiálitið einnig. Ef við höldum því fram að hægt sé að taka úr sambandi verkefni sveitarfélaga með sértækum hætti, til að mynda tiltekna vegarspotta, brýr eða skipulagsákvarðanir, erum við augljóslega búin að taka úr sambandi alla hugsunina um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það verður auðvitað ekki á móti því mælt að löggjafinn getur með almennum lögum ákveðið hvaða verkefni heyra undir sveitarfélögin og hvaða ferli, þjónusta o.s.frv. sé á þeirra hendi. En að nálgast þetta með svona sértækum hætti tel ég að fari á svig við umrætt ákvæði. Ég tel raunar afar mikilvægt að hv. atvinnuveganefnd fari sérstaklega yfir þennan þátt. Ég vil í klassískum anda gera við það athugasemd að málinu sé vísað til atvinnuveganefndar. Hér erum við að tala um mál sem lúta að eftirtöldum lagabálkum: Skipulagslöggjöf, náttúruverndarlöggjöf, lögum um Árósasamninginn og starfsemi sveitarfélaga. Þetta eru allt saman lög sem heyra undir umhverfis- og samgöngunefnd. Til vara vil ég, vegna þess að ég veit að kominn er hlýlegur kosningahamur í fólk, leggja til að umhverfis- og samgöngunefnd fái málið til umfjöllunar og umsagnar. Best færi auðvitað á að nefndirnar ynnu þetta mál saman vegna þeirrar þekkingar sem er fyrir hendi í þeirri nefnd og um þessa lagabálka sem hér eru nefndir.

Ég hef vikið að þessum sértæku málefnum, þ.e. þeim málefnum sem eru í raun og veru hinn lögfræðilegi grunnur frumvarpsins þar sem álitamálin eru reifuð, hvort sem það er Árósasamningurinn, EES-regluverkið, afturvirkni laganna, sjálfsákvörðunarrétturinn o.s.frv. Mér finnst þó þegar allt kemur til alls kannski mikilvægast af öllu að halda því til haga að þessi tegund af löggjöf er í rauninni mjög alvarlegt inngrip í réttarríkið. Það eru engir aðrir en við sjálf, þ.e. Alþingi Íslendinga, sem höfum sammælst um almennar reglur. Við höfum sammælst um almennar reglur í skipulagsmálum, í lögum um mat á umhverfisáhrifum, aðkomu almennings að upplýsingum og kæruleiðum o.fl. í gegnum Árósasamninginn. Við höfum lögfest sérstaka kærunefnd umhverfis- og auðlindamála, lögfest náttúruverndarlög í þverpólitískri sátt og svo framvegis. Allri þessari löggjöf er ætlað að taka á stórum og smáum viðfangsefnum þegar þau reka á okkar fjörur með almennum hætti, út frá almennum reglum. Þegar svo er komið, eins og í þessu tilviki hér, að þessar almennu reglur setja okkur í vanda, og þá er ég að reyna að nálgast málið af þeirri sanngirni að segja að hér sé komin upp flókin staða og ríkir efnahagslegir hagsmunir sem enginn dregur í efa, hver er þá leiðin til að nálgast þá stöðu? Hér held ég og veit að hæstv. ráðherra iðnaðarmála og flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, vilja vera þekkt fyrir ákveðna stjórnfestu, þekkt fyrir að ekki sé verið að sjúskast í löggjöfinni með því að taka inn hitt og þetta eftir því hvað hentar deginum. Það er ekki gott fyrir stöðuga löggjöf og réttaröryggi borgaranna að menn megi búast við því að löggjafinn grípi inn í ferla með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég held að þetta geti verið afar afdrifaríkt í ljósi fordæmisins. Við gætum setið uppi með að til þessa yrði vísað í framhaldinu með stórt og smátt.

Við munum eftir því að þingmenn hafi komið fram með mál, og það hafa að jafnaði verið svokölluð þingmannamál, sem varða þeirra hjartans mál, sértæk löggjöf um einn tiltekinn veg til dæmis eða sértæk löggjöf um eina tiltekna framkvæmd eða flugvöll, sem af einhverjum tilteknum ástæðum tengist baráttumálum viðkomandi þingmanns í kjördæminu. En að jafnaði hefur fólk verið þeirrar skoðunar að þessi leið sé ekki góð. Hún endurspegli ekki stöðugleika og metnað í löggjöf heldur séum við komin út á þetta gráa svæði þar sem við erum farin að umgangast löggjafarhlutverkið af ákveðnu virðingarleysi. Á löggjafinn yfirhöfuð að hlaupa til í einu tilteknu máli? Er rétt að gera það?

Nú er það svo að auðvitað standa spjót á ráðherranum. Henni er vorkunn. Hún fær bréf frá sveitarfélögum sem segja bara: Eitthvað þarf að gera. Ég hef ákveðna samúð með því að finna þurfi út úr stöðunni. Því verður þó ekki á móti mælt að hér eru gríðarlega mörg alvarleg lögfræðileg álitamál fyrir hendi. Líka má horfa til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ekki verið ofalin af fjármagni eða öðrum umbúnaði. Það er náttúrlega áhyggjuefni. Ekki bara fyrir þá tilteknu kærunefnd heldur fleiri kærunefndir sem við erum með í Stjórnarráðinu eða stjórnsýslunni sem sitja uppi með langa hala og stafla af málum og þar með þurfa borgararnir, framkvæmdaraðilar, leyfisveitendur og fleiri að sæta því að mikil bið er eftir að fá niðurstöður sinna mála. Það er líka óviðunandi staða.

Hins vegar vil ég segja að fram hefur komið af hálfu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að til standi að ljúka við umræddan úrskurð í októbermánuði. Það eru nýjar fréttir. Það var ekki það sem var rætt um til að byrja með heldur var rætt um að framkvæmdastoppið þyrfti að vera til áramóta, ef ég man rétt, meðan úr því yrði skorið hvort tiltekin ákvæði ættu við í þessu efni sem þyrfti að rökstyðja með hliðsjón og tilvísan til nýsamþykktra náttúruverndarlaga.

Ég velti því fyrir mér í hvaða stöðu Alþingi og ráðherrar eru, á nokkrum vikum í raun og veru, að fara fram með þessu fordæmi. Við erum ekki í tómarúmi hér, hvorki pólitískt né gagnvart dagatalinu. Starfsáætlun Alþingis er að ljúka, við erum að fara í kosningar. Ráðherrann hefur væntanlega til þess metnað að skilja þetta eftir í einhverjum skorðum þegar hún hverfur frá embætti. En ég vil samt láta þetta sjónarmið lifa í umræðunni. Það er ekki eins og það sé þess virði að fara af stað með löggjöf af þessu tagi sem hefur ófyrirséðar afleiðingar gagnvart réttarríkinu í heild og sem mögulegt fordæmi fyrir alls konar lögfræðilegu sjúski sem Alþingi á ekki að taka þátt í að mínu mati.

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvort eignarnámsferlinu væri lokið. Það kom fram í máli hennar að óskað hefði verið eftir eignarnámi eða þess hefði verið farið á leit ef ég man rétt í október 2015. Og ráðherrann ynni að því að tryggja að þar væru öll ferli rétt í ljósi fyrri mála sem lúta að suður- eða suðvesturlínu. Það er allt gott og eðlilegt. Um leið má ekki gleyma að þar er einn þáttur málsins sem hefur ekki verið til lykta leiddur. Ekki frekar en það mál sem hér er undir. Þetta mál fjallar jú ekki um eignarnámshlutann. Ég hef ekki enn fengið svör við því hvað það er sem rekur okkur í að fara svona kirfilega út á grátt svæði í löggjöf miðað við aðrar tímalínur sem eru undir í málinu, stöðu málsins hjá úrskurðarnefnd o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að hæstv. ráðherra hjálpi mér í að málið fái einhverja úrvinnslu líka í umhverfis- og samgöngunefnd með því að geta þess í lokaræðu sinni. Ég veit að hv. formaður atvinnuveganefndar tæki því fagnandi að eiga samstarf við umhverfisnefnd í því sem öðru. Að öðru leyti tel ég að við þurfum að vinna þetta mál afskaplega ítarlega. Hér eru allt of mörg lögfræðileg álitamál og farið inn á svið og skref sem ég tel að geti orðið mjög afdrifaríkt að taka.