145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fjalla sérstaklega um það sem síðast kom fram í orðum hv. formanns atvinnuveganefndar varðandi hans mikla tilboð í þá veru að halda hjólum atvinnulífsins gangandi með því að rífa rammaáætlun í sundur. Ég ætla að víkja að orðum hans um málsástæður sem liggja til grundvallar þessum kærumálum. Ég get ekki látið hjá líða að nefna það. Hann lætur að því liggja að málsástæðurnar snúist allar um náttúruverndarlög. En í þessum kærumálum sem Landvernd byggir á erum við að tala um tilvísun í lög um verndun Mývatns og Laxár að auki, skipulagslög, lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana, lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, raforkulög og stjórnsýslulög. Það þarf að vera algerlega fyrirliggjandi að við erum ekki einungis að tala um þau sjónarmið sem lúta að náttúruverndarlögum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða sjónarmið hann hefur varðandi þessi boðuðu inngrip löggjafans í störf óháðrar úrskurðarnefndar. Þetta er eitt af þessum verkfærum sem við höfum í íslenskri stjórnsýslu. Það má alveg gera athugasemdir við það í sjálfu sér og hafa efasemdir um hve oft þessi úrskurðarnefndarleið hefur verið farin á Íslandi, þar sem pólitísk ábyrgð á niðurstöðu mála er kannski ekki eins ljós og hún væri ef úrskurðir væru bara á borði ráðherra sem menn gætu þá bara kosið í burtu í næstu kosningum.

Hvað telur þingmaðurinn að sé þarna í húfi, að fara inn í störf óháðrar úrskurðarnefndar sem hefur sannarlega, og líka eftir þessa löggjöf, það hlutverk samkvæmt lögum að úrskurða um ákveðin álitamál sem borin eru undir hana og hefur gert það í þessu tilviki? Hver er staða úrskurðarnefndar sem hefur sætt slíkri löggjöf?