145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans framlag til umræðunnar hér, en hann svaraði bara alls ekki þeim spurningum sem ég bar upp við hann hér í andsvari. Ég spurði hann í fyrsta lagi um inngrip löggjafans í störf kærunefnda, óháðrar úrskurðarnefndar. Ég benti honum líka á þá staðreynd hvaða málsástæður lágu að baki kærumálum sem komu frá Landvernd.

Hv. þingmanni er umhugað um að hlutirnir gerist hratt og örugglega og fram kemur ákveðinn urgur í framsetningu hans gagnvart Landvernd. Hann telur Landvernd koma nokkuð seint fram með þessar athugasemdir. Það breytir því ekki að veruleikinn er sá að sem betur fer höfum við þannig löggjöf að grasrótarhreyfingar á við Landvernd hafa aðkomu að málum á þeim stigum sem þessi aðkoma er hjá þeim. Þó að hv. þingmanni leiðist það þá er það svo.

Ég vil biðja hv. þingmann að reifa það í svari, og reyna þá að halda sig við það sem ég er að spyrja um, hvaða afstöðu hann hafi til seinagangs Landsnets í þessu máli sem er sannarlega fyrir hendi. Landsnet hefur dregið lappirnar í þessu máli. Að mörgu leyti má segja að sú staða sem upp er komin sé ekki síður því að kenna að Landsnet hefur ekki haldið dampi í málinu.

Ég vil líka, virðulegi forseti, halda því til haga að ákveðin sjónarmið eru hér í uppnámi ef við umgöngumst af léttúð þá staðreynd að við viljum vernda ósnortin víðerni og að hraun hafa haft stöðu í náttúruverndarlögum um áratugaskeið.