145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðallega að hafa hér nokkur orð um forsögu mála, þ.e. framkvæmda á Bakka í Suður-Þingeyjarsýslum, að gefnu tilefni og ekki síst vegna orðaskipta fyrr í umræðunni milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur. Þetta er orðin löng saga, áform eða væntingar manna um að nýta í einhverjum mæli og einhverju skyni hluta orkunnar úr háhitasvæðum Þingeyjarsýslna. Svo lengi sem ég hef verið í pólitík, og það eru nú nokkur ár eins og kunnugt er, þá hafa áform af ýmsu tagi svifið yfir vötnum, sum kannski ekki orðið meira en hugmyndir í kolli manna eða á blöðum og pappír, en önnur komist lengra. Það hafa verið ýmsar hugmyndir uppi í gegnum tíðina eins og pappírs- eða trjákvoðuverksmiðjur, súrálsverksmiðjur og um árabil hékk yfir þessu byggðarlagi biðin eftir risavöxnu álveri. Menn settu margir hverjir allar vonir sínar um að það mundi brjóta í blað í sögu atvinnuuppbyggingar og byggðar á þessu svæði. Ég var á móti þeim áformum og fékk ekki alls staðar þakkir fyrir vegna þess að ég taldi þær óraunhæfar og í raun og veru óverjandi í ýmsu tilliti, umhverfislegu tilliti og hæpinn ávinning af þeim til lengri tíma litið fyrir farsæla og stöðuga byggðaþróun á þessu svæði, neitandi þó ekki hinu að Suður-Þingeyjarsýsla og að hluta til norðausturhornið hefur verið byggðarlega veikt svæði og átt í erfiðleikum undanfarin ár. Það má segja að það hafi verið veikur hlekkur í keðjunni milli Eyjafjarðarsvæðisins og Mið-Austurlands eða Austfjarðanna, aldurssamsetning hefur verið að gerast óhagstæðari og íbúafækkun verið umtalsverð. Það er því ekki þannig að mann vanti skilning á því að bundnar séu vonir við að nýsköpun í atvinnumálum geti lyft svæðinu. Það hefur blessunarlega gerst síðan og ferðaþjónustan skiptir gríðarlegu máli orðið á þessu svæði, hefur blómstrað eins og hvalaskoðun frá Húsavík o.s.frv.

Áformin um risaverksmiðjur, hvort sem það hefði verið súrálsverksmiðja eða álver sem hefði sogað til sín 500, 600 megavött af raforku, voru að mínu mati frá fyrsta degi fullkomlega óábyrg. Það var einfaldlega vegna þess að slíkar verksmiðjur hefðu sogað upp á einu bretti og tekið til sín alla mögulega nýtanlega háhitaorku í Þingeyjarsýslum, væntanlega Skjálfandafljót og hefði varla dugað til ef það hefði verið fullvirkjað, enda horfðu menn þá til ýmist framan af orku í viðbót úr Jökulsá á Fjöllum eða úr jökulvötnunum í Skagafirði. Þetta hafði líka í sér þann stórkostlega ágalla, sem ég held að við séum vonandi búin að læra fyrir lífstíð núna, að menn töldu sig geta sest niður við skrifborð og reiknað út mögulega hámarksafkastagetu háhitasvæða, jafnvel lítt rannsakaðra háhitasvæða, eins og það væri ekkert mál að virkja þau á einu bretti í einu þrepi, einum áfanga. Hver er nú reynslan af því að ganga svoleiðis fram? Ætli þeir viti ekki eitthvað um það hjá Hellisheiðarvirkjun.

Þess vegna verður ekki annað sagt með neinum rétti en að sú stefnubreyting sem varð í þessum málum einkum á árinu 2011 hafi verið mjög farsæl enda stuðluðum við að henni og studdum hana sem þá vorum með þessi mál. Í staðinn fyrir áform um risavaxnar verksmiðjur sem hefðu sogað til sín alla þessa orku með gríðarlegum umhverfisfórnum og ekki skilið neitt eftir til þróunar fyrir komandi kynslóðir tóku málin þá stefnu að menn fóru að skoða litla eða meðalstóra iðnaðarkosti sem gætu byggst upp í áföngum og tekið tiltölulega hóflegt magn orku. Inn á það spor fara málin síðan með nýjum viljayfirlýsingum og síðan viðræðum við fyrirtækið PCC. Hvaða mynd blasir þá við okkur í dag séð í þessum stóru dráttum sögunnar um orkunýtinguna og vernd og friðun á þessu svæði sem geymir auðvitað líka margar af dýrmætustu náttúruperlum landsins? Jú, hún er sú að uppbyggingu á Bakka núna nægir fyrsti áfanginn í virkjun á Þeistareykjum einum sem þegar var auðvitað búið að opna upp með rannsóknarborunum o.s.frv. og ljóst að yrði í fyllingu tímans með einhverjum hætti virkjað. Gjástykki sem var undir í eldri hugmyndum er komið í verndarflokk. Það var afgreitt síðast í rammaáætlun. Ákaflega umdeildur og lítill virkjunarkostur á þessu svæði sem var okkur náttúruverndarsinnum flestum mikill þyrnir í augum. Fyrir þingi liggur tillaga um flokkun, rammaáætlunartillagan, þar sem Skjálfandafljót og jökulvötnin í Skagafirði eru lögð til í verndarflokk. Við skulum ætla að Jökulsá á Fjöllum sé nú loksins endanlega komin í skjól. Menn heyktust á því að taka hana inn í flokkun núna eftir að þeim var bent á að hún væri hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og er sem slík friðlýst, enda tekur þjóðgarðurinn til Jökulsár frá upptökum til ósa og bakkana með. Þá blasir við okkur verulega breytt mynd í þessum efnum. Allt er þetta að mínu mati stórkostleg framför frá því sem þarna vofði yfir alveg fram á árið 2009/2010. Við erum að tala um allt annan veruleika núna.

Þá aðeins að iðnaðarsvæðinu á Bakka og því sem þar hefur verið lagt af mörkum til að opna það upp sem staðfestingarkost eða möguleika fyrir iðnaðarstarfsemi. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Björt Ólafsdóttur að fjárfestingarsamningurinn og þátttaka ríkis og sveitarfélags er meiri í þessum fyrsta áfanga en sums staðar annars staðar hefur átt við, þ.e. að nokkru leyti meiri ívilnun en þó sérstaklega meiri bein þátttaka í nauðsynlegum innviðafjárfestingum. Á þetta hefur aldrei verið dreginn neinn dulur. Það lá ljóst fyrir frá byrjun að þessa mundi þurfa ef það ætti að vera raunhæft að laða til samstarfs um uppbyggingu aðila á nýju svæði, „köldu“, í þessum skilningi. Þessi stuðningur hefur allur verið tekinn út og prófaður og allur verið samþykktur m.a. af Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA. Hann er algjörlega og langt innan ramma þess sem Íslandi er heimilt að gera við sambærilegar aðstæður. Þetta er einskiptiskostnaður að uppistöðu til, þ.e. verið er að fjárfesta til framtíðar í innviðum sem síðan geta nýst frekari áföngum í uppbyggingu atvinnulífs á þessu svæði. Ég tel það mikinn kost fyrir Ísland að fjölga möguleikunum úr tveimur, þremur í þrjá, fjóra, að það sé ekki bara bundið við Grundartanga eða suðvesturhornið og kannski Mið-Austurland að menn geti sett niður iðnaðarstarfsemi af þessu tagi sem þarf til sín eitthvert tiltekið magn orku.

Þessar framkvæmdir eru af stærðargráðu sem eru allt aðrar og viðráðanlegri fyrir svæðið og vinnumarkaðinn en t.d. risaframkvæmdirnar voru fyrir austan. Það eru ágætisástæður til að ætla að þessi uppbygging geti gengið þannig fyrir sig að af henni hljótist ekki miklar kollsteypur, ekki ofþensla sem verði óviðráðanleg á framkvæmdatímanum og bakslag og timburmenn eftir þá.

Það sem er hvað mest freistandi er að ef þróunin gæti síðan orðið jöfn og góð í þeim efnum og einhver lítil og meðalstór fyrirtæki bættust síðan við á svæðinu. Þá gæti þarna orðið tiltölulega farsæl uppbygging sem mundi styrkja allt Mið-Norðurland og norðaustanvert landið og yrði auðvitað mjög góð þróun í byggðarlegu tilliti og af ýmsum öðrum ástæðum. Það liggur líka að mörgu leyti beinast við að horfa til einhverrar nýtingar orkunnar sem næst uppsprettunum. Það á að þýða minni flutningavandamál, minni töp á orku og hefur ýmsa praktíska kosti í för með sér.

Ég er því ekki feiminn við að standa hér og mæla því bót sem þarna var gert í kjölfar þeirra miklu breytinga sem urðu á málum 2011 og það hefur að mínu mati gjörbreytt til hins betra stöðunni hvað varðar pressuna á náttúruverðmætin á þessum slóðum. Það hefur hjálpað til við að nú er lagt til að færa í verndarflokk náttúruperlur sem áður voru undir í nýtingaráformum og þannig mætti áfram telja.

Varðandi þetta mál er það hins vegar afar vandasamt og snúið. Staðan sem upp er komin er mjög bagaleg. Það leiðir af sjálfu að inngrip af því tagi sem hér er lagt til í frumvarpi er gríðarlega vandasamt. Það hlýtur alltaf að orka tvímælis að fara inn með slíkt. En staðan er líka mjög snúin eins og glöggt kemur fram í fylgiskjölum og menn þekkja af umfjöllun fjölmiðla. Það er auðvitað ákaflega bagalegt ef í stóru samsettu verkefni geti uppnám sem verður hjá einum einasta aðila í keðjunni stöðvað allt hitt með tilheyrandi tjóni og vandræðum. Hvað ætti þetta að kenna okkur? Ég held að þetta eigi að kenna okkur það, og vonandi verður þá aldrei aftur uppi staða af þessu tagi eða þörf á frumvarpi af þessu tagi og verður aldrei fordæmi eins eða neins, að það gengur ekki að hafa hlutina í þannig röð að einhverjir fari af stað fyrr en allt er klárt. Það verður að vera þannig. Ef tímalínunum í þessu er ekki breytt og gengið þannig frá því að það verði alltaf að mætast allt í einum punkti þá held ég að skilyrða verði framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi annarra aðila við það að allir hinir séu komnir með grænt ljós þannig að svona lagað geti ekki gerst. Það hefði nú kannski mátt huga að þessu á Suðurnesjum. Það er auðvitað glórulaust að einhverjir geti farið af stað í miklar framkvæmdir og fjárfestingar meðan enn þá ríkir óvissa um það hvort allir í samsettu verkefni komist í land með sitt. Það er engum til góðs að bjóða upp á áhættuna af því að svona lagað gerist. Tímalínuna í því hvernig matsferli og síðan útgáfa framkvæmdaleyfa sem er sett upp í samsettum verkefnum af þessu tagi verður að taka til endurskoðunar og/eða ganga einhvern veginn þannig frá því að svona staða geti ekki komið upp af því að auðvitað vill enginn lenda í þessu og það á ekki að vera þannig. Þá á líka að vera hægt að tryggja alltaf til enda þann rétt sem menn eiga til að láta reyna á lögmæti ákvarðana stjórnsýslunnar, útgáfu leyfa og annað í þeim dúr. Þann rétt viljum við líka að sjálfsögðu virða. Ég held að þetta hljóti að gefa okkur tilefni til að endurskoða þetta og ég hef heyrt á aðilum sem hafa verið að vinna í þessu máli að undanförnu eins og lögmönnum að þeir eru hugsi yfir því að löggjöfin skuli vera þannig útbúin að svona staða geti komið upp. Það er eiginlega alveg ótrúlegt. Ef við berum þetta saman við einhverja aðra viðamikla áætlana- og samningagerð þá er það oft þannig að ekki er búið að semja um neitt fyrr en búið er að semja um allt. Er það ekki þannig í kjarasamningum? Er það ekki oft þannig þegar verið er að landa flóknum samsettum málum að menn klára ýmsa þætti þeirra, en segja: Það er ekki búið að semja um neitt fyrr en búið er að semja um allt. Þetta er ekki orðinn samningur, þetta er ekki orðin niðurstaða fyrr en allir endar hafi verið hnýttir. Ég held þetta verði að vera þannig. Það er auðvitað ómögulegt að sveitarfélög, iðnfyrirtæki, orkufyrirtæki, ríkið sjálft, geti lent í stórkostlegu tjóni út af því að einhver einn aðili er á eftir.

Það er það síðasta sem ég ætlaði að nefna, frú forseti, það er ómögulegt að komast hjá því að nefna að fyrirtækið Landsnet ber hér verulega ábyrgð á því hvernig komið er. Það er alveg augljóst. Þeir voru allt of seinir á sér í þessum efnum, höfðu kannski ekki einu sinni skoðað nægjanlega vel þá löggjöf sem í hlut átti og lenda sem síðasta skip af stað og ef á bjátar í þeirra siglingu er allt í uppnámi. Ég held að það blessaða fyrirtæki verði að hugsa verulega sinn gang hvað það varðar að það sé tímanlega á ferð með sinn þátt mála í samsettum verkefnum af þessu tagi. Síðan eru samskipti þess fyrirtækis við náttúruverndarsamtök og slíka aðila greinilega í molum. Það getum við ekki haft. Menn verða að geta talað saman og hlýtt tímanlega hver á annars sjónarmið þegar svona hlutir eru í farvatninu og menn verða að vera þeim vanda vaxnir að eiga samskipti um mikilsverð mál.

Ég vona svo að viðkomandi þingnefnd gangi vel að skoða þetta ákaflega vandasama mál sem er ekki einfalt eins og áður sagði og í raun dapurlegt að við skulum þurfa að vera í þeim sporum að vera með það hér í höndunum.