145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

679. mál
[16:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má svo sem deila um hvort þetta er andsvar eða eitthvað annað, en ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að skýra nokkra hluti örlítið betur.

Það er rétt að málið hefur legið töluvert lengi. Núna þessa vikuna hefur sá sem hér stendur þurft að bíða til að geta mælt fyrir málinu, eðlilega, vegna þess að önnur mál hafa verið á dagskránni en hins vegar er málið í sjálfu sér ekki mjög flókið eða íburðarmikið ef má orða það þannig. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að ná utan um þessa auðlind, þetta eru fyrstu skrefin í því til að ná utan um verkefnið. Með frumvarpinu er ekki verið að byrja að heimila nýtingarrétt, það er ekkert í þessu sem segir að menn geti, eftir að búið er að samþykkja það á þingi, rokið út og farið að nýta auðlindina meira en gert er í dag. Það er fyrst og fremst verið að skapa umgjörð, ramma inn þessa auðlind, byrja að taka þau skref. Síðan kemur að sjálfsögðu í ljós hvað auðlindin er stór eða hvað hægt er að nýta af henni, þá tökum við mið af því í framhaldinu. Við töldum rétt vegna þess áhuga sem er til staðar í dag að stækka kannski það sem fyrir er, nýta það betur, nýir aðilar vilja koma inn, byrja á að setja þennan ramma utan um starfsemina og svo tökum við á hinu þegar það liggur fyrir hvað auðlindin getur verið mögulega stór eða lítil, það fer eftir hvernig við skilgreinum það.

Það er líka mjög mikilvægt að hér komi fram að við vildum eiga gott samtal við helstu hagaðila varðandi þetta mál og höfum gefið okkur góðan tíma í það. Það er ein ástæðan fyrir því að þetta hefur kannski gengið rólega hjá okkur. Hitt er líka að í þessu felast mikil tækifæri fyrir þau byggðarlög sem þarna eru undir, byggðarlög sem eru rótgróin í þessum bransa ef má orða það þannig, líka fyrir nýja aðila að koma inn ef auðlindin þolir slíkt. Við munum, ég er sammála hv. þingmanni með það, að sjálfsögðu ekki taka neina áhættu með nýtingu á auðlindinni.