145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við göngum senn til kosninga og þingstörfum fer brátt að ljúka. Það er eðlilegt að við komum saman á eldhúsdegi og ræðum um árangur þingstarfanna þetta kjörtímabilið og veltum fyrir okkur helstu baráttumálum, helstu áherslumálum, inn í framtíðina.

Á þessu kjörtímabili hefur afar mörgu verið komið til leiðar. Við settum í forgang að bæta skuldastöðu heimilanna sem voru í sárum þegar síðast var gengið til kosninga og við höfum á því sviðinu náð árangri sem vekur athygli langt út fyrir landsteinana. Við töluðum um að létta þyrfti sköttum af heimilunum og atvinnulífinu. Það hefur skipt miklu. Sú stefna hefur tryggt að fólk heldur eftir meiru af sjálfsaflafé og fyrirtækin geta auðveldar staðið undir gjöldum og sínum ábyrgðum með því að við höfum lækkað tryggingagjald. Við vildum taka til í ríkisfjármálunum, losna undan þessari miklu vaxtabyrði, bæta lánskjör ríkisins og allt þetta hefur gengið eftir. Við höfum fengið betri og viðvarandi stöðugleika og verðbólgan er lægri.

Hér á þinginu og í aðdraganda þessara kosninga finnur maður fyrir því að þrátt fyrir allt er samhljómur um margt á Alþingi. Það er samhljómur t.d. um að menn vilja styrkja betur heilbrigðiskerfið á Íslandi. Það er sömuleiðis ágætissamhljómur um að við viljum gera enn betur í almannatryggingum á Íslandi þannig að þeir sem eru komnir á efri ár geti betur komist af, haft meira á milli handanna, haft úr meiru að spila. Hið sama gildir fyrir öryrkja. Það er ekki mikill ágreiningur á Alþingi, þótt menn geti svo sem viljað forgangsraða hver með sínum hætti, t.d. þegar kemur að samgöngum í landinu. Við viljum gera átak þar.

Ég gæti haldið svona áfram, en okkur greinir hins vegar oft á um það hvernig við eigum að skapa aðstæðurnar til að þetta eigi allt að geta orðið að veruleika og þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt mikla áherslu á að það skiptir máli bæði fyrir heimilin og atvinnulífið, eins og ég hef komið hér inn á, að menn séu ekki með stefnu sem íþyngir um of þegar kemur að opinberum sköttum og gjöldum. Árið 2017, á næsta ári, munu einstaklingar borga 15 milljörðum minna í tekjuskatt en ef við værum enn með kerfið sem gilti hér árið 2013 þegar ný ríkisstjórn tók við. Við höfum létt 15 milljörðum af heimilunum með breytingum á tekjuskattskerfinu.

Atvinnulífið borgar 10,5 milljörðum minna í umhverfinu sem tekur við þegar þessi ríkisstjórn fer frá borið saman við það sem gilti þegar ný ríkisstjórn tók við. Íslendingar greiða 13,5 milljörðum minna í opinber gjöld, neysluskatta, eins og tolla og vörugjöld, en átti við þegar ríkisstjórnin tók við. Við beittum alveg nýjum aðferðum í því. Við horfðum á þessa tekjustofna ríkisins og spurðum: Er það þess virði að viðhalda stofnum af þessum toga sem eru fyrst og fremst að leggjast á heimilin og neytendur í þessu landi? Svarið var einfalt, það var orðið tímabært að afnema löngu úrelt aðflutningsgjöld og það var orðið vel tímabært að taka til í tollkerfinu. Hefðbundin hugsun hefði verið: Afnemum enga tolla án þess að fá niðurfellingar á tollum hjá einhverjum viðskiptaþjóðum, en við hugsuðum með okkur: Það er ekki þess virði að bíða jafnvel í áratugi eftir því að fá niðurfellingar á tollum hjá viðskiptalöndum okkar og láta í millitíðinni íslenska neytendur sitja uppi með tollana sem við þykjumst vera að leggja á útflutning annarra þjóða. Við þurftum að horfast í augu við það. Við vorum fyrst og fremst að leggja tollana á Íslendinga og íslenska neytendur. Sama gilti um vörugjöldin.

Þetta skiptir máli í enn víðara samhengi en þessu. Þetta skiptir máli í því samhengi að landamærin eru öll að opnast, verslun og þjónusta þarf að geta búið við samkeppnishæf skilyrði. Það gerði íslenska verslunin ekki þegar þessi ríkisstjórn tók við. Með fullu afnámi almennra vörugjalda og niðurfellingu tolla, auk þess sem við höfum lækkað virðisaukaskattinn niður í það lægsta sem hann hefur verið frá því kerfið var leitt í lög, höfum við jafnað samkeppnisstöðu verslunar á Íslandi þannig að hún er fyllilega samkeppnisfær við verslun og þjónustu á Norðurlöndunum. Fyllilega. Það kemur íslenskum neytendum til góða.

Þess ber að geta í þessu samhengi að um þessar mundir, m.a. af þessum ástæðum, er verðbólgan í kringum 1%. Það finna allir Íslendingar hversu miklu það skiptir að búa við stöðugleika. Stöðugleiki er eitt helsta baráttumál okkar inn í þessar kosningar, hefur verið á þessu kjörtímabili og er um leið eitt helsta hagsmunamál heimilanna, að menn geti búið við fjárhagslegt öryggi, atvinnulegt öryggi, geti tekið ákvarðanir inn í framtíðina án þess að hafa áhyggjur af því að hér sé að koma ný kollsteypa, að vextir rjúki upp úr öllu valdi eða atvinnan sé ekki í hendi eftir eitt eða tvö, þrjú, fjögur ár. Hvorki heimilin né atvinnulíf geta tekið ákvarðanir inn í framtíðina við slíkar aðstæður. Við munum áfram leggja áherslu á þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að við höfum einstakt tækifæri í höndunum í dag vegna þess samkomulags sem náðst hefur við aðila vinnumarkaðarins um mótun nýs vinnumarkaðslíkans. Það samkomulag er viðkvæmt. Það byggir á gagnkvæmum skilningi. Það samkomulag er ekki bara á milli ríkis og almenna markaðarins, það er á milli ríkis og almenna markaðarins og opinbera markaðarins á vinnumarkaði og það gengur í allar áttir. Það getur enginn einn skotið sér undan og sagst ætla að ná sínum markmiðum fram.

Eitt af því sem við gætum mögulega lært af þessu kjörtímabili þegar ég horfi til baka er það að kannski fóru stjórnmálamenn í kapphlaup við stéttarfélögin um það hver gæti sýnt fram á að hann gæti fært aðgerðir í lög eða í verk sem mundu auka kaupmátt. Það þarf að vera jafnvægi og samkomulag um hvernig slíkt gerist. Það er mögulega ein ástæðan fyrir því að erfitt reyndist að ná kjarasamningum á þessu kjörtímabili og við skulum draga lærdóm af því inn í framtíðina.

En við höfum ekki bara verið að beita okkur fyrir breytingum sem hafa lækkað vöruverð og aukið kaupmátt heimilanna, við höfum líka verið að breyta stórum kerfum hjá okkur. Í því sambandi er nauðsynlegt að minnast á mjög stóra breytingu í dómsmálum á Íslandi með upptöku millidómstigs, það er gríðarlega mikið framfaraskref. Ég ætla líka að minnast á breytingar í skólamálum, framhaldsskólastigið hefur tekið miklum breytingum og í framtíðinni munu íslenskir framhaldsskólanemar koma fyrr inn í háskólanám og á endanum fyrr út á vinnumarkaðinn sem mun tryggja að fólk á lengri starfsævi, er lengur að taka þátt í atvinnulífinu, mun skapa meiri verðmæti og landsframleiðslan mun af þeim sökum vaxa. Við verðum betur samkeppnishæf í samkeppni við aðrar þjóðir með slíkt menntakerfi. Við verðum að halda áfram að styrkja háskólastigið, framhaldsskólastigið og grunnskólastigið til að tryggja að við verðum samkeppnisfær í samkeppni hugmyndanna í framtíðinni. Við erum með frumvarp sem breytir lánakerfi námsmanna á Íslandi, mikið framfaramál. Við höfum líka unnið á þessu kjörtímabili að stjórnarskrárbreytingum þótt ekki hafi tekist eining um þær breytingar.

Við höfum því verið að gera stórar breytingar á þessu kjörtímabili sem allar horfa til framfara og eru farnar að breyta umhverfinu til hins betra. Við sjáum það nú í fyrsta skipti í mörg ár, á árinu 2016, að fleiri Íslendingar flytjast aftur til Íslands en frá landinu. Iðnaðarmenn flytja nú heim til Íslands í stað þess að flytja til Noregs. Þetta er eitt dæmið um það að hlutirnir eru augljóslega á uppleið. Enda væri það ekki svo að menn væru að tala af jafn mikilli bjartsýni um það að hægt væri að hrinda mörgum framfaramálum í framkvæmd á næsta kjörtímabili í hverjum flokknum á fætur öðrum í aðdraganda þessara kosninga ef menn væru ekki sammála um að mikið hefði áunnist. En nú ríður á að menn fari ekki fram úr sér. Menn fylgi raunverulega eftir í verki þeim orðum sem oft eru viðhöfð héðan úr þessum ræðustól að menn beri skynbragð á það hversu miklu stöðugleiki skiptir, að menn fari ekki fram úr sér í eigin metnaði til að ná eigin markmiðum og raski stöðugleikanum. Þetta skiptir öllu.

Ég vonast til þess að þær vikur sem eru fram undan muni nýtast þinginu til þess að ljúka þessum stóru framfaramálum, málum á borð við endurskipulagningu lífeyriskerfisins þar sem við erum að fullfjármagna og jafna lífeyrisréttindin á Íslandi og öðrum stórum málum og í framhaldinu geti farið fram málefnaleg kosningabarátta þar sem virðing er borin fyrir kjósendum og við í framhaldinu getum unnið saman að framfaramálum fyrir land og þjóð. Það eru allar aðstæður til þess.