145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Við Íslendingar eigum fjölmargt sameiginlegt. Við eigum víkingaklappið, við eigum lopapeysuna, við eigum heimsmet í fésbókarnotkun, heil kynslóð um fertugt á sömu skelfilegu bernskuminninguna um sjónvarpsmyndina um rauðhærðu afturgönguna í sjónvarpshúsinu, við erum alræmd fyrir að horfa saman á söngvakeppnina á hverju vori, engum dettur í hug að sleppa áramótaskaupinu, við þykjumst flestöll kunna textann þegar Stál og hnífur er tekinn í partíum, já, okkur finnst líka flestum gaman að hlusta á ABBA.

Við eigum mjög margt sameiginlegt. Og samfélag okkar stendur um margt sterkum fótum. Við erum í þeirri öfundsverðu stöðu að hafa margt að gefa.

Annars staðar í heiminum eru hlutirnir öðruvísi, annars staðar í heiminum eru börn myrt í stórum stíl. Stríð hefur geisað í Sýrlandi síðan 2011. Óbreyttir borgarar hafa fallið svo skiptir hundruðum þúsunda. Tugir þúsunda barna hafa verið myrtir. Tugir milljóna barna eru á flótta.

Þetta er flóttafólkið sem við erum að tala um, fólkið sem flýr sprengjur og óhugnað sem við getum sem betur fer fæst ímyndað okkur, fólkið sem einhverjir eru svo hræddir við að þeir tala um að loka landamærum og afnema mannúð og kærleika sem okkur finnst mörgum að eigi að vera kjarni okkar samfélags, kjarni þess sem við erum.

65 milljónir manna eru á flótta. Helmingur þeirra er börn sem hafa ekkert til þess unnið að vera svipt framtíð sinni. Þetta gætu verið börnin okkar.

Kæru landsmenn. Við getum hjálpað fleirum en við gerum núna og við eigum að hjálpa fleirum en við gerum núna. Sumir tala um að innflytjendur ógni velferðarkerfi okkar. Sú skoðun stangast beinlínis á við staðreyndir, byggist ekki á neinum raunverulegum gögnum. Það er ekki þannig að hér búi svo margir að fleiri komist ekki fyrir. Hér eru nefnilega næg tækifæri til að byggja upp og gera betur. Um það erum við sammála. Það er spurning hvaða stefnu við ætlum að taka sem samfélag til þess.

Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fyllst mikilli bjartsýni rétt fyrir kosningar, telja upp afrek sín og eigna sér heiðurinn af góðu ástandi, allt hafi byrjað að vera frábært þegar þessi ríkisstjórn var mynduð í frægu sumarbústaðapartíi 2013. Það var kannski ekki alveg þannig. Það er auðvitað mjög margt frábært á Íslandi, til að mynda íþróttafólkið okkar, listafólkið, sundlaugarnar, norðurljósin, fossarnir og fjöllin, heilbrigðisstarfsfólkið og kennararnir, frumkvöðlarnir, rútubílstjórarnir, bændurnir, fiskverkafólkið — í stuttu máli fólkið og landið eru frábær og margt hefur lagst á gæfusveif með okkur Íslendingum. Samstillt átak margra hefur gert það að verkum að margir hafa það mun betra nú en fyrir nokkrum árum.

Samt er fólk ekki sátt. Og af hverju er það?

Í fyrsta lagi af því að ekki hefur verið komið heiðarlega fram og enginn er ánægður þegar hann sér ráðamenn fara með blekkingar og ósannindi. Í öðru lagi að þó að ríkisstjórninni hafi tekist að gera margt vel og þrátt fyrir góða stöðu efnahagsmála í ýmsu tilliti er fólk ekki sátt því að efnahagsbatanum hefur ekki verið skipt jafnt. Réttlætið hefur ekki ráðið för. Það eru enn meira en 6.000 börn á Íslandi sem líða einhvers konar skort. Enn er fólk sem þarf að neita sér um læknisþjónustu og lyf vegna þess að það á ekki fyrir þeim. Enn eru stórir hópar aldraðra og öryrkja sem fá 180.000 kr. á mánuði og geta með engu móti náð endum saman. Unga fólkið okkar, framtíðin okkar, sér það svart á hvítu að kjör þess á Íslandi nú eru verri en þau voru hjá ungu kynslóðinni fyrir 30 árum.

Fólk er ekki sátt því að batanum hefur ekki verið skipt jafnt. Kjör hinna verst stöddu hafa ekki verið bætt nægjanlega. Tillögur um kjarabætur til aldraðra og öryrkja voru felldar við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Á lokametrum fráfarandi ríkisstjórnar koma tillögur um kerfisbreytingar fyrir aldraða en enn er ekki nóg gert fyrir verst stöddu hópana. Tækifærin hafa ekki verið nýtt til að hefja raunverulega sókn.

Sama hvað talað er um margar krónur í heilbrigðiskerfið drógust útgjöld til heilbrigðismála saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt OECD. Það er eini raunverulegi mælikvarðinn sem hægt er að taka mark á og hann sýnir að heilbrigðiskerfið hefur ekki fengið að njóta batans á sama tíma og meira en 86.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun um að þetta hlutfall ætti að fara upp, ekki niður.

Það er ekki eina undirskriftasöfnunin þar sem ekki hefur verið hlustað. Það var önnur slík gegn því að lækka veiðigjöld. Þau fóru hins vegar samviskusamlega niður og arðgreiðslur upp á móti — þrátt fyrir 35.000 undirskriftir í það skipti. Matarskatturinn fór upp. Vaxta- og barnabætur fóru niður. Það var samþykkt stefna um að fjárveitingar á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna 2016 og meðaltali Norðurlanda 2020. Allir fögnuðu því. Svo samþykkti ríkisstjórnin ríkisfjármálaáætlun þar sem boðað var að þessu markmiði yrði náð, ekki með fleiri krónum heldur færri nemendum. Sama virðist vera upp á teningnum í framhaldsskólum landsins þar sem talað er um framlög á nemanda en sleppt að minnast á að girt hafi verið fyrir aðgang 25 ára og eldri að bóklegu framhaldsskólanámi, einhliða ákvörðun verið tekin um að stytta framhaldsskólann þvert á öll sjónarmið um faglegt frelsi og sjálfstæði — og þetta kom frá flokknum sem kennir sig við frelsi.

Týndu tækifærin snúast ekki aðeins um hvernig stjórnvöld hafa vanrækt að byggja upp samfélagsstoðir okkar. Þó að Ísland hafi fullgilt Parísarsáttmálann sem er mikilvægt skref í baráttunni við loftslagsbreytingar liggur enn engin aðgerðaáætlun fyrir um hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við höfum skuldbundið okkur til að uppfylla. Hvernig ætlum við að verða kolefnishlutlaust samfélag? Hvers vegna er ekki löngu búið að kalla okkur öll til, stjórnmálaflokka, verkalýðshreyfingu, atvinnulíf, umhverfisverndarsamtök og sveitarfélög, til að ná þjóðarsátt um það hvernig við ætlum af fullri alvöru að takast á við loftslagsbreytingar sem munu geta breytt öllu um umhverfi barna okkar og barnabarna?

Hvernig á að uppfylla þann vilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 þar sem meiri hluti landsmanna lýsti þeim vilja að byggja nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs? Það er skylda okkar að leggja fram tillögur um hvernig við ætlum að ljúka því ferli þannig að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið. Því miður hafa tækifærin þar líka farið forgörðum á þessu kjörtímabili. Þetta er ríkisstjórn hinna týndu tækifæra og þetta er líka ríkisstjórnin sem ætlaði sér að setja heimsmet. Fyrst sagðist hún hafa sett heimsmet í skuldaleiðréttingum sem voru kannski frekar sýslumet ef miðað er við það sem var lofað fyrir kosningar. Það sem situr eftir er að þessi ríkisstjórn á eitt heimsmet, líklega þó kannski Evrópumet, sem er fjöldi ráðherra í Panama-skjölum.

Það var réttlætt eftir á með því að einhvers staðar yrði ríka fólkið að geyma peningana sína. Er þetta fólkið sem ætlar að takast á við skattaskjólin?

Kæru landsmenn. Ef fólk er ósátt í raun við að stoðirnar hafi verið vanræktar, innviðirnir, allt það sem við eigum saman, og að hafa verið blekkt í ofanálag, hefur það tækifæri til að breyta stöðunni núna í haust. Við getum nýtt tækifærið sem er fram undan og valið aðra leið. Það er hægt að velja að skattleggja fjármagn en ekki fólk og tryggja að fjármunirnir nýtist til að jafna kjör, bæta kjör öryrkja og aldraðra, létta gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og styrkja rekstur sjúkrahúsanna, rekstur heilbrigðisstofnana úti um land allt og hinnar opinberu heilsugæslu.

Það er hægt að velja að byggja upp framhaldsskóla og háskóla og skapa þannig tækifæri fyrir framtíðina. Hér þarf fjölbreyttara atvinnulíf sem byggist á því að fólk skapi sín eigin tækifæri. Þess vegna eigum við að efla nýsköpun og rannsóknir og tryggja aukna verðmætasköpun í öllum greinum atvinnulífs.

Því er raunar stundum haldið fram að verðmætasköpun í atvinnulífinu sé undirstaða þess að við getum haft alvörumenntakerfi og alvöruvelferðarkerfi, að þessi kerfi séu einber peningahít og geti ekki komið fyrr en við erum búin að tryggja verðmætasköpunina. En er það svo? Vissulega hentar ákveðnum hagsmunum að segja að annars vegar sé um þá að ræða sem skapa og hins vegar þá sem þiggja en það er vægast sagt einföldun því að hér á sér stað víxlverkun. Sterkt atvinnulíf er undirstaða öflugs menntakerfis og velferðarkerfis en um leið byggir öflugt atvinnulíf á sterku velferðarkerfi og sterku menntakerfi.

Eins og ávallt verðum við að spyrja okkur hvernig samfélag við viljum vera, hvaða leiðir við viljum velja.

Kæru landsmenn. Ég held að við viljum ekki vera samfélag þar sem nokkur þúsund börn líða einhvers konar skort í landi sem telst hið ellefta ríkasta í heiminum. Og, já, ég held að við viljum vera samfélag sem tekur á móti meðbræðrum og -systrum okkar sem flýja hörmuleg stríð. Það er nefnilega hægt að hjálpa, það er hægt að hjálpa okkar fólki án þess að loka dyrunum fyrir öðrum.

Það er hægt að velja stjórnmálaöfl sem eru tilbúin í það verkefni.

Við getum valið það fólk sem treystir sér til að leggja fram raunverulegar hugmyndir um hvernig við ljúkum stjórnarskrárbreytingum, fólk sem er reiðubúið að leggja allt í sölurnar til að Ísland geti tekist á við stærstu áskorun samtímans, loftslagsbreytingar.

Einhvern tímann var sagt að þegar öllu væri á botninn hvolft væri traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið. Það reyndist rétt. Rúmu ári seinna var Ísland nánast á hausnum með skelfilegum afleiðingum fyrir alla okkar mikilvægu samfélagslegu innviði. Gallinn á þessari traustu efnahagsstjórn var að einmitt var skorið niður á mikilvægum stofnunum eins og Landspítalanum en útgjöld aukin í alls kyns önnur verkefni án þess að skýr forgangsröðun væri fyrir hendi. Réttlæti var ekki haft að leiðarljósi þá.

Hvar erum við stödd nú? Tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir og opinberum fjármunum eytt með sérkennilegum hætti, t.d. í að lækka skuldir tekjuhæstu hópa samfélagsins á meðan fátækasta fólkið situr enn eftir og innviðirnir eru í órækt. Þetta er ekki traust efnahagsstjórn, ekki nú frekar en þá, og þess vegna er tækifærið fram undan mikilvægt, tækifæri til að velja annars konar efnahagsstjórn þar sem ábyrg ríkisfjármálstefna fer saman við markmið um jöfnuð, umhverfisvernd og lýðræði, tækifæri til að veðja á framtíð þar sem allir leggja til samfélagsins með réttlátum hætti og við höldum áfram að rækta allt þetta dýrmæta sem við eigum saman.

Það held ég að sé góð framtíð. Við eigum ekki að láta segja okkur að sú framtíð sé óraunhæf. Við getum einmitt látið hana verða ef við gerum það saman. — Góðar stundir.