145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu með þeim skyldum og réttindum sem því fylgja. Í morgun birtist frétt á forsíðu Morgunblaðsins um að rússneskar herflugvélar hefðu flogið undir íslenskri farþegaþotu á leið til Stokkhólms í síðustu viku. Vélarnar hefðu ekki látið vita af sér og flogið án auðkennis, en íslenski flugstjórinn sá þær út um gluggann. Þó að ekki hafi verið um að ræða brot á alþjóðalögum þá minnir atvik af þessu tagi okkur á að þó við búum á eyju er Ísland svo sannarlega ekki eyland þegar kemur að öryggismálum. Atvik af þessu tagi minna okkur á hið stóra samhengi hlutanna, að nýsamþykkt lög um þjóðaröryggisráð og stefnu eru ekki bara upp á punt heldur snúast um raunveruleg mál sem varða fullveldi Íslands og öryggi almennings.

Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum um loftslagsmál er að sama skapi hluti af stóra samhenginu, baráttunni fyrir bættum heimi. Ísland getur verið stolt af sínu framlagi. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku var eftir því tekið að Ísland var á meðal fyrstu þjóða til að fullgilda samninginn.

Alþingi hefur einnig stigið mikilvæg skref með nýlegri fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn var undirritaður árið 2007, en loks samþykktur í þessum sal í síðustu viku. Fullgildingin þýðir ekki að takmarkinu sé náð, en hún varðar leiðina og rekur á eftir nauðsynlegum laga- og samfélagsbreytingum. Í stóra samhenginu felur fullgildingin í sér skýra stefnumörkun um að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og að samfélagið okkar verði betra. Það er reyndar markmiðið með flestum þeim málum sem rædd eru í þessum sal, að bæta samfélagið.

Góðir landsmenn. Við erum öll sammála um að auknar fjárveitingar til heilbrigðismála bæti samfélagið okkar en feli ekki í sér greiðasemi við sérstaka hópa, lækna eða annað heilbrigðisfólk. Við erum öll sammála um að fjárfesting í menntakerfinu felur ekki í sér greiðasemi við kennara heldur sé til þess fallin að bæta og efla samfélagið.

Við erum öll sammála um að fjárframlög til menningar og lista feli ekki í sér greiðasemi við rithöfunda og leikara, heldur bæti þau samfélagið og beri landi og þjóð gott vitni í hinu stóra samhengi.

Að sama skapi er fjárfesting í matvælaöryggi og atvinnuþróun ekki greiðasemi við ákveðna hópa, bændur eða búalið. Hún er stefnumótandi ákvörðun um að hér á landi skuli framleidd matvæli rétt eins og íslenskar kvikmyndir eða bækur sem bera hróður okkar um heim allan.

Kostnaðarþátttaka hins opinbera í sameiginlegum gæðum er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur venjan í þeim samfélögum sem við berum okkur saman við. Hitt er vissulega pólitískt álitamál hvernig eigi að skipta þjóðarkökunni. Við getum tekist á um það hvort það sé skynsamlegt eða ekki að eyrnamerkja 0,6% af landsframleiðslu nýsamþykktum búvörusamningum sem eiga að tryggja matvælaöryggi og stuðla að byggð í landinu.

Framsóknarflokkurinn vill tryggja að landið verði allt áfram í byggð. Við teljum að það séu hagsmunir okkar allra. Aðrir flokkar kunna að vera okkur ósammála um það, en hitt hljótum við að vera sammála um að mikilvægast er að stækka þjóðarkökuna svo að meira verði eftir til skiptanna. Þess vegna eru efnahagsmál svo mikilvæg. Að heimilin í landinu séu sterk, að atvinnulíf blómstri, að atvinnuþátttaka sé mikil og að við sköpum aukin verðmæti. Brýnt er að staða ríkissjóðs sé traust og að skýr stefna og festa í efnahagsmálum vísi veginn, að við stöndum á rétti okkar sem þjóð, hvort sem við tökumst á við erlenda vogunarsjóði eða þjóðríki eins og í Icesave-málinu, eða matvælakeðju sem ber nafn Íslands og vill banna íslenskum fyrirtækjum að auðkenna sig með upprunalandinu á erlendum mörkuðum.

Góðir landsmenn. Fyrir átta árum keyrði íslenska efnahagsrútan út í skurð þar sem hún sat föst í nokkur ár. En við erum komin af stað á ný með sterkar hendur á stýri. Til að byrja með var leiðin hál og brekkan brött, en með mikilli seiglu erum við komin á jafnsléttu á ný og leiðin er greið. Hins vegar hefur aldrei verið mikilvægara en nú að hafa augun á veginum og tryggja að við keyrum ekki of hratt. Því jafnvel þótt vegurinn hafi batnað eru beygjurnar krappar og augnablikskæruleysi getur verið dýrkeypt. Þess vegna skiptir máli að við stýrið sitji reynslumikill bílstjóri sem kunni að keyra við ólíkar aðstæður.

Á kjörtímabilinu hefur orðið algjör kúvending á stöðu heimilanna. Með skýrri sýn og markvissri stefnu hefur okkur tekist að leysa flókin verkefni og búa í haginn fyrir framtíðina. Þess vegna er nú svigrúm til að styrkja innviði samfélagsins enn frekar.

Við viljum efla heilbrigðisþjónustuna í landinu. Við eigum að bæta vegi og efla fjarskiptakerfi svo að allir landsmenn sitji við sama borð. Við eigum að ýta undir nýsköpun í atvinnulífi, menningu og menntun og hér á Alþingi eigum við að vinna saman að stórum hagsmunamálum.

Við verðum einnig að ávinna okkur traust hver annars og takast á um stefnur og málefnalegar áherslur en ekki um einstakar persónur. Við eigum í þessum sal ekki bara að ræða um einstök mál, heldur leyfa okkur að velta vöngum, skiptast á skoðunum, jafnvel um hugmyndafræði og það eins þó að við vitum ekki öll svörin. Hvernig tryggjum við til dæmis lýðræðislega niðurstöðu í viðkvæmum málum? Hvernig tryggjum við að lýðræðið bitni ekki á minnihlutahópum? Hvað gerum við þegar lýðræðið verður markaðsvara, þegar krafan um afþreyingargildið verður hagsmunum yfirsterkari? Eða þegar lýðræði skilar niðurstöðum úr prófkjöri sem er á skjön við gildi samfélagsins, t.d. um kynjajafnrétti?

Á sviði jafnréttismála standa fáar þjóðir Íslendingum framar. Á fundi með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í síðustu viku bað hann mig að færa Íslendingum þakkir fyrir að sýna gott fordæmi. Er þeim hér með komið til skila. En þrátt fyrir góðan árangur er mikið verk óunnið við að tryggja konum og körlum jöfn tækifæri, við að tryggja raunverulega jafna stöðu stúlkna og drengja og útrýma menningarlegum kynjamismuni. Um það eigum við að sameinast til hagsbóta fyrir okkur öll.

Góðir landsmenn. Ferðalag undanfarinna ára hefur verið gríðarlega lærdómsríkt. Sjálf hef ég setið víða í rútunni, starfað í Seðlabankanum, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í verkefnahópnum um leiðréttingu, haftalosun og í stjórnkerfinu og nú sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Ég er ánægð og stolt af árangrinum. Ríkisstjórnin er að skila góðu búi og nú er lag til að fylgja mikilvægum málum eftir og auka enn frekar velsæld fyrir heimilin í landinu. Ferðalagið heldur áfram og á næstu vikum verður tekist á um stefnu og áherslur við stjórn landsins. Ég hlakka til þeirrar umræðu enda er ég bjartsýn á framtíð Íslands.

Góðir landsmenn. Eigið góðar stundir.