145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:24]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæru landsmenn. Ég stóð í fyrsta skiptið hérna í þessum ræðustól fyrir rúmum þremur árum, óharðnaður þingmaður með bjartsýnina eina að vopni. Þá lagði ég út frá því að þingið ætti möguleika á því að verða besta þing í sögunni því að það ætti eftir að reyna á að við gætum vandað okkur og að við værum ekki búin að festa léleg vinnubrögð og fúsk í sessi. Núna erum við hérna þremur og hálfu ári seinna. Sú staðreynd að ríkisstjórnin ákvað að flýta kosningum bendir til þess að mér hafi ekki orðið að ósk minni. Þetta var skrýtið kjörtímabil og skrýtin og sérstaklega ólánsöm ríkisstjórn sem nú er að gefast upp á rólunum eins og hún Grýla gamla forðum.

Í ræðu minni um árið benti ég á að lipurð íkornans væri eftirsóknarverðari en þyngsli bjarnarins. Því miður hefur manni oft liðið eins og postulínssalanum sem sér fíl ganga glaðhlakkalegan inn um dyrnar. Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar voru að lækka veiðigjöld og afnema auðlegðarskatt. Þar afsalaði ríkisstjórnin sér tekjum sem hefðu getað nýst til að byggja upp innviði eða hækka laun til aldraðra og öryrkja eða jafnvel til að reka skurðstofur í Vestmannaeyjum, byggja upp heilsugæsluna. En, nei, það var ekki ákvörðunin.

Lækkun tolla og vörugjalda er í sjálfu sér verðugt verk en ríkisstjórnin gerði það með hækkun skatta á skólabækur og mat. Er nokkuð sem eflir ráð og dáð eins og matur og bækur? Þetta er furðuleg forgangsröðun.

80 milljarðar fóru í svokallaða skuldaleiðréttingu. Peningum var dreift til sumra sem höfðu farið illa út úr hruninu en ekki t.d. þeirra sem skulda verðtryggð námslán, ekki til þeirra sem voru í leigu o.s.frv. Aðgerðin nýttist best höfuðborgarbúum á miðjum aldri og upp úr, ekki tekjulágum og ekki þeim sem höfðu misst vinnu eða lækkað í launum. Kostnaðurinn einn við aðgerðina hljóp á milljörðum. Þarna fóru 80.000 miljónir sem fara ekki í annað. Björt framtíð stóð hart gegn þessari aðferðafræði.

Búvörusamningar til tíu ára voru unnir í nánu samráði við suma hagsmunaaðila en ekki aðra. Þar var algerlega horft fram hjá samkeppnissjónarmiðum og hagsmunum neytenda. Hér er enn eitt dæmið þar sem ríkisstjórnin virðist draga taum sérhagsmuna umfram hagsmuna almennings.

Svikin loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið og svæfing endurskoðunar stjórnarskrárinnar í nefnd eru svo kapítuli út af fyrir sig.

Uppljóstranir Panama-skjalanna voru kornið sem fyllti mælinn. Þegar í ljós kom að þáverandi hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra hefðu átt reikninga í skattaskjólum var það í hrópandi mótsögn við samstöðu almennings til að koma hlutum á réttan kjöl eftir hrunið. Aumkunarverðar tilraunir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra til afneitunar bitu höfuðið af skömminni. Það að íslenskt samfélag hafi verið á hvolfi og pólitíkin lömuð svo mánuðum skiptir út af vandræðum einstakra ráðherra og innanflokksátökum í stjórnarflokkunum nær náttúrlega engri átt. Svona rugl er ekki í boði eins og sagt er.

Núna er mánuður til kosninga og Alþingi situr enn. Ríkisstjórnin vill troða málum í gegnum þingið hvort sem um þau er sátt eða ekki. Þar má nefna t.d. grundvallarbreytingu á námslánakerfinu sem er hætt við að minnki aðgengi og þyngi greiðslubyrði. Annað furðulegt áherslumál er að banna verðtryggð lán en bara til mjög þröngs hóps þeirra sem eru ólíklegastir til að þurfa eða vilja taka slík lán. Það er dálítið eins og að banna sölu á tóbaki til reyklausra:

„Góðan daginn, ég fæ kannski hjá þér smávindla.“

„Uuuuu. Ertu reykingamaður?“

„Nei, ég er reyndar hættur sjálfur.“

„Þá get ég ekki afgreitt þig. Ríkisstjórnin var að setja bann.“

Hérna sló ég á létta strengi. Það er óviðeigandi því að stjórnmál eru grafalvarleg, ekki satt? Stundum er bara ekki annað hægt.

Við þurfum að snúa frá óreiðustjórnmálum og lausatökum síðustu ára. Handarbaksvinnubrögð og fúsk eiga ekki rétt á sér. Það þarf að vanda sig. Það er kallað eftir meiri heiðarleika í stjórnmálum og meiri sanngirni í samfélaginu.

Þrátt fyrir ömurlegar uppákomur í pólitíkinni hafa makríll, ferðamenn, lágt olíuverð o.fl. hjálpað til og margt lítur betur út, sérstaklega ef við horfum á meðaltalið. Það segir bara því miður ekki allt. Það eru hópar út undan í þessum uppgangi. Aukin kostnaðarþátttaka í velferðarkerfinu, takmarkanir á þjónustu og grotnandi innviðir gera hlutskipti þessara hópa enn verri. Það er kerfislægt verið að takmarka aðgengi að samfélaginu og það þarf að stoppa.

Sagan hefur sýnt að við erum bjartsýn þjóð og setjum markið hátt. Verum ekki þeir aumingjar að þora ekki að tryggja að samfélagið sé raunverulega fyrir alla. Hendum okkur bara í þetta og fáum sem flesta með í verkið. Þetta er ekkert stórmál, annað eins hefur verið gert.

Björt framtíð hefur staðið vaktina á Alþingi. Við höfum staðið við okkar gildi um að stunda betri og heiðarlegri stjórnmál. Við höfum haft kjark til þess að horfa til framtíðar, horfa á langtímasjónarmið. Við höfum stutt gott og staðið hörð á móti fúski, höfum unnið eins í sveitarstjórnum, staðið fyrir umbótum og langtímahugsun. Björt framtíð á í farsælu meirihlutasamstarfi í Hafnarfirði, á Akranesi, í Kópavogi og Reykjavík þar sem meira en helmingur landsmanna býr. Þar störfum við með öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi, nema reyndar Framsóknarflokknum.

Það væri auðvelt að standa hér og moka út loforðum. Ég tek undir með öllum öðrum um að það þurfi átak í heilbrigðismálum og menntamálum, það þurfi stöðugleika og átak í samgöngumálum, en við þurfum líka átak í að ræða af hverju okkur hefur ekki tekist að fara í þetta átak fyrr. Við þurfum að komast að því hvernig við eigum að koma hlutunum í verk, það er ekki nóg að segja það bara mánuði fyrir kosningar. Það sem gildir á endanum er trúverðugleiki og góður vilji.

Við í Bjartri framtíð hlökkum til að taka til hendinni og axla ábyrgð. Þótt ég hafi sagst hlakka til kjörtímabilsins í ræðu minni fyrir þremur árum verð ég að viðurkenna að því lýkur ekki mínútu of snemma eftir það sem á undan er gengið.

Horfum fram á við, skiljum við fúsk og óreiðu síðustu ára og göngum óhrædd til kosninga því að framtíðin er björt. — Góða ferð.