145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæru landsmenn. Við lifum á umbrotatímum þar sem gríðarlega hraðar umbreytingar eiga sér stað, við okkur blasir flókin og ógnvænleg heimsmynd þar sem öfgar og popúlismi eru orðin yfirþyrmandi veruleiki sem ógnar tilveru okkar allra. Spillingin flæðir upp á yfirborðið í algerri síbylju og áreitið er orðið svo mikið að langtímahugsun og samkennd á undir högg að sækja. Það sem allir fyllast vandlætingu og reiði yfir í dag er orðið að gamalli tuggu eftir viku, ný spilling opinberast og heltekur alla umræðu án þess að fundnar hafi verið leiðir til að taka á því sem skók þjóðina vikuna áður.

Því er svo mikilvægt að gera sig meðvitaðan um aðferðafræði þeirra sem etja ólíkum hópum hverjum gegn öðrum til að komast til valda. Til dæmis er enginn málflutningur eins ömurlegur og forsmár og að stilla hvorum gegn öðrum tveimur viðkvæmum hópum samfélagsins í stað þess að horfast í augu við að það er kerfislæg ástæða fyrir því að þeir sem eru aldraðir, veikir eða öryrkjar þurfa að búa við erfið kjör. Sú neyð er ekki fólkinu að kenna sem leitar hér skjóls frá stríði og ógn. Ástæðan byggir fyrst og fremst á þeirri staðreynd að auði þjóðar er ekki skipt jafnt og þeir sem græða mest á auðlindum þjóðarinnar eru jafnframt að gera það á kostnað þeirra gömlu, fátæku og veiku.

Síðan Píratar urðu til höfum við áunnið okkur mikið traust meðal þjóðarinnar. Það kom okkur eiginlega algerlega á óvart en áhuginn og traustið hefur eðlisbreytt flokknum og við þurft að leggjast á allar árar til að vera undir það búin að takast á við meiri ábyrgð en við gerðum okkur í hugarlund þegar við stofnuðum flokkinn fyrir örfáum árum. Það hefur kallað á bæði yfirgripsmikla heildarsýn á hvert við ætlum okkur að stefna með ykkur, þjóðinni, inn í framtíðina og nýja hugsun um hlutverk stjórnmálaafla við að efla hlutdeild almennings í þátttöku, ákvörðun og ábyrgð í lýðræðissamfélagi. Það er frábært að skynja að svo margir eru tilbúnir að vera með í þessari valdeflingu og valddreifingu sem raun ber vitni.

Það traust sem okkur hefur verið sýnt í skoðanakönnunum kallar á auðmýkt og mikla vinnu til að sýna í verki að hægt sé að breyta samfélagsgerð okkar til langframa í góðri sátt við þjóðina. Það er hægt með raunsæjum kerfisbreytingum þar sem úrelt, flókin og oft mannfjandsamleg kerfi eru sett til hliðar með nútímalegri stjórnarháttum. Ef okkur tækist til að mynda að fá aðra flokka með okkur í lið um að gera með sér samkomulag um að fyrir kosningar lægju fyrir drög að stjórnarsáttmála þeirra sem vilja vinna saman eftir kosningar mundi það breyta stjórnmálunum til langs tíma og verða vonandi til þess að fólk fái aukið traust á Alþingi. Þá lægju málamiðlanirnar fyrir fyrir fram og hin dæmigerðu vonbrigði nánast strax eftir kosningar væru fyrirbyggð. Slík tilraun kallar líka á raunsæi kjósenda. Það er ekki hægt að breyta öllu á einu bretti, en það er hægt að búa til nýja ferla svo mikilvæg vinna sé ekki sett í ruslið þegar nýjar stjórnir taka við. Það hefur t.d. allt of oft gerst varðandi heildræna nálgun við langtímastefnumótun heilbrigðisþjónustunnar.

Píratar hafa einbeitt sér að því að móta stefnu á nýjum og traustum grunni þar sem þung áhersla er lögð á aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku, eftirliti með verkum kjörinna fulltrúa og leiðum til að kalla fólk til ábyrgðar með lögum sem hafa nú þegar verið skrifuð í nýju stjórnarskrána sem safnar því miður ryki í þingheimum. Viðstöðulaust erum við áminnt um hve mikilvægt og gæfuríkt það hefði verið að lögfesta þennan nýja samfélagssáttmála og því hafa Píratar ákveðið að stjórnarskrá fólksins verði fyrsta mál á dagskrá fáum við til þess umboð.

Okkar helstu markmið fyrir næsta kjörtímabil eru eftirfarandi:

1. Uppfærum Ísland með nýju stjórnarskránni.

2. Tryggjum réttláta dreifingu arðs af auðlindunum.

3. Endurreisum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.

4. Eflum aðkomu almennings að ákvarðanatöku.

5. Endurvekjum traust og reynum að tækla þessa spillingu.

Píratar hafa mótað tíu ára áætlun dregna saman úr yfir 100 stefnumálum sem grasrótin okkar hefur unnið að hörðum höndum við að skrifa undanfarin ár og samþykkt í kosningakerfi okkar. Í þeirri vinnu hafa Píratar greint hvar mest aðkallandi breytingar þurfa að eiga sér stað svo hægt sé að tryggja velferð allra samfélagshópa. Við erum rík þjóð og því er algerlega óásættanlegt hve margir lifa við fátækt og óvissu um velferð sína. Við viljum finna lausnir sem eru ekki bara plástrar heldur lausnir sem fara í snarrótina á samfélagi okkar til að fyrirbyggja endalaust rugl og hringl með þau réttindi sem fólk á að geta gengið að án þess að rekast stöðugt á veggi og ranglæti.

Við teljum nauðsynlegt að valdefla hjarta lýðræðisins sem á að slá á Alþingi í öllum sínum fjölbreytileika. Þar er hægt að opna alla vinnu og draga meiri ábyrgð á herðar öllum flokkum sem vinna þar. Það gengur ekki lengur að þingið sé svo máttlaust gagnvart framkvæmdarvaldinu að undantekningalaust sé þingmálum sem fela í sér meiri háttar breytingar mokað inn í þingið langt eftir að lokaskilafrestur er útrunninn og málin dregin blindandi í gegn án þess að hægt sé að gæta alvörusamráðs og upplýsinga gagnvart þeim sem þurfa að lúta þessum lögum, ykkur.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að það sé einatt síst eftirsóknarvert að vera forseti þingsins af hugsanlegum embættum og að forseti sem þó á að hafa hið raunverulega dagskrárvald hafi ekki umboð til að framfylgja sínum eigin áætlunum. Þetta er ekkert nýtt og virðist vera einkennandi fyrir stjórnsýslu okkar. Píratar vilja forseta Alþingis sem þorir að standa uppi í hárinu á ráðherrum þegar þeir verða of bráðir í að koma með mál of seint í þingið og senda vanbúin mál aftur upp í ráðuneyti.

Orð eru mögnuð, sér í lagi orð í lagatexta. Þau hafa áhrif á raunverulegt fólk og réttindi þess. Því megum við þingmenn aldrei gleyma.

Mörg verkefni bíða allra flokka sem hafa áhuga á að vinna að því að móta nýja Ísland. Skotgrafir gamla Íslands eru bæði tilgangslausar og hundleiðinlegar. Ef við viljum stöðva flæði fólks frá landinu verðum við að nútímavæða landið og gefa ungu fólki tilfinningu fyrir því að hér sé mögulegt að búa án þess að vera skuldaþræll.

Píratar eru sá flokkur sem hefur hvað mestan fjölda af ungu fólki sem hefur lýst sig reiðubúið að taka þátt í móta samfélagið sitt. Það er stórkostlegt ævintýri að eiga smávegis í því að hafa verið með í að búa til þannig pólitískt hreyfiafl. Það vekur upp von og kraft að sjá allt þetta fólk leggja svo mikið á sig til að taka þátt í að búa til samfélag.

En píratar eru ekki bara ungt fólk, við höfum líka okkar silfurgráa her og reynslumikið fólk sem miðlar þekkingu á milli ólíkra samfélagshópa og áhugasviða. Að vera pírati þýðir í hugum margra í dag að vilja kerfisbreytingar. Kerfin eru grisjótt og götótt og alveg kominn tími á að prófa nýja aðferð við að gera eitthvað í því.

Margir eru feimnir við að Ísland sé best í einhverju eftir allt sem á undan er gengið, en Ísland má alveg vera í fararbroddi með eitthvað annað samfélagslegt en útrásarvíkinga og heimsmet í sitjandi ráðherrum með eignir í skattaskjólum. Við vorum stolt af því að standa með nýjum lýðræðisríkjum á undan öllum og getum verið stolt af nýju stjórnarskránni og hvernig hún var unnin. Almenningur hafði miklu meiri aðkomu að gerð hennar en áður hefur verið gert í heiminum.

Nýja Ísland er að brjóta sér leið í gegnum þær sprungur sem komu í jarðskjálfta hrunsins. Lögfestum nýja samfélagssáttmálann okkar. Hann má hafa hnökra, ekkert er fullkomið eða hoggið í stein, hnökra má laga með tíð og tíma.

Ég er sannfærð um að hluti af því ferli sem við þurfum að fara í til að geta gert upp hrunið sé fólgið í þeirri vissu að við gerðum eitthvað magnað úr erfiðum efnivið og gátum leyft okkur að búa til sameiginlega sýn um hvernig við endurspeglumst í okkar æðstu lögum. Þessi þjóð sem ég sé í nýju stjórnarskránni er þjóð sem mér finnst gott að tilheyra. — Takk fyrir að hlusta.