145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það er óþreyja í loftinu. Í hverjum málaflokknum á fætur öðrum er kallað eftir fjármunum og breytingum. Eftir þrengingar síðustu ára hefur nú á þessu kjörtímabili orðið viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs og árangur Íslands hefur farið fram úr björtustu vonum svo eftir er tekið.

Við skulum ekki gleyma því að það eru örfá ár síðan Ísland rambaði á bjargbrúninni. Nú er tíðin önnur. Það er nóg af peningum, heyrist hvarvetna. Við séum í færum til að gera alla hluti, það sé nóg til. Þetta ákall er eitt skýrasta dæmið um þann árangur sem við höfum sameiginlega náð. En að sama skapi þarf að fara með gát. Árangur næst ekki af sjálfu sér og verkefninu er aldrei lokið. Ríkissjóður er enn skuldsettur og forgangsatriði er að lækka skuldir áfram. Það þarf að halda áfram að taka réttar ákvarðanir.

Það er öllum áskorun að stjórna á góðæristímum. Þá reynir á að standa á bremsunni á ákveðnum sviðum en sýna meiri undanlátssemi á öðrum. Við þurfum núna að forgangsraða, huga að nauðsynlegum innviðaverkefnum og horfa til framtíðar. Það má aldrei gleyma að við erum að ráðstafa sameiginlegum fjármunum okkar allra. Við setjum stefnuna á heilbrigðiskerfi okkar. Við setjum stefnuna á grunnþjónustuna. Við hugsum fyrst og fremst um að tryggja að efnahagslegur ábati sem nú er í höfn renni til allra landsmanna, ekki síst til þeirra sem veikar standa og þurfa á stuðningi að halda. Á sama tíma ætlum við að ná árangri á þessum sviðum auk þess að mæta brýnum verkefnum í samgöngu- og löggæslumálum. En við verðum líka að horfa inn í framtíðina og spyrja okkur á hvaða grundvelli verði gróska Íslendinga til lengri tíma.

Sá tími er nefnilega liðinn að stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar ákveðið fyrir fólk hvað það eigi að starfa við og hvernig það eigi að haga sér, hafi það þá nokkurn tíma verið þeirra hlutverk. Við verðum að átta okkur á því að við lifum á tímum byltingar tækni og vísinda þar sem samkeppnishæfni okkar og velgengni ræðst í æ ríkara mæli af getu okkar til að þróa og skapa og ryðja nýjar brautir. Þetta er alþjóðleg þróun sem við erum hluti af. Þessar breytingar hafa orðið hér t.d. í sjávarútveginum þar sem hugvitið og þekkingarsköpunin hefur beinlínis eflt verðmætasköpun í greininni. Allt á grundvelli menntunar, vísinda og þróunar.

Markmiðið er að fjölga stoðum atvinnulífsins á grundvelli menntunar og um leið velferðar í landinu. Mikil tækifæri felast í því að nýta sem best það sterka háskóla- og tækniumhverfi sem hér er til nýsköpunar og þróunar. Við eigum að hugsa um menntakerfið sem mótorafl, skólana, rannsóknirnar, vísindastarfið. Það þarf að efla sköpunarkraft og frumkvæði. Aðeins þannig höfum við aðgengi að hæfu starfsfólki til framtíðar og aðeins þannig tryggjum við komandi kynslóðum næg tækifæri. Við þurfum að halda áfram að hugsa um menntun smábarnanna, íslenskuna, máltæknina sem er algert grundvallaratriði svo móðurmál okkar fylgi eftir og lifi í tækniþjóðfélagi nútímans. Nú er það þannig að hlutfall þeirra sem útskrifast úr tækni- og raungreinum á háskólastigi er lægst á Íslandi á Norðurlöndunum og þessu þurfum við að breyta. Við þurfum og eigum að hugsa um stuðning ríkisins við námsmenn og í því sambandi er frumvarp menntamálaráðherra um LÍN gríðarlega mikilvægt innlegg sem ég veit að stúdentar bíða að sjálfsögðu eftir að Alþingi afgreiði.

Ríkisvaldið á ekki að velja sér atvinnugreinar, eina frekar en aðra. Það á ekki að vera hlutverk þess. Þvert á móti á ríkið að skapa frjóan jarðveg til rannsókna, öfluga innviði og færni svo hausinn á okkur sjálfum komist á flug og til verði tækifæri sem enginn hefur í dag hugmynd um hver verða. Við höfum þegar tekið skref í þessa átt. Með stefnu- og aðgerðaáætlun vísinda- og tækniráðs var stórt skref stigið. Með því að breyta lögum um útlendinga þannig að hægara sé um vik að fá erlenda sérfræðinga til landsins sem er algert lykilatriði fyrir Ísland á komandi árum, með frumvarpi um LÍN, með styttingu grunnnámsins og með hvítbók í lestri auk máltækninnar. Núna þurfum við að halda áfram á þessu sviði. Við þurfum að taka stór skref fram á við.

Góðir landsmenn. Kosningarnar í október eiga nefnilega að snúast um framtíðina. Þær eiga að snúast um möguleika okkar til að vera í fremstu röð. Þá skiptir máli hvernig er stjórnað. Á grundvelli traustrar efnahagsstjórnar og stöðugleika getum við undirbúið landið okkar, framtíðarkynslóðirnar, fyrir framtíðina. Svigrúmið er sem betur fer til staðar í ríkisfjármálum en við vitum að verkefnin eru víða. En það er enginn vafi að á næstu árum verður að horfa til menntakerfisins, hvort sem litið er til grunnmenntunar, háskólanna eða framlags til samkeppnissjóða í vísindum og nýsköpun. Þar liggja stóru tækifæri Íslands í framtíðinni. — Góðar stundir.