145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Þegar við framsóknarmenn lítum um öxl yfir það kjörtímabil sem nú er að líða getum við gert það með stolti. Sá árangur sem náðst hefur er um margt ótrúlegur, bæði þegar kemur að stöðu ríkissjóðs en ekki síður stöðu almennings og atvinnulífs. Við lögðum af stað árið 2013 með þau fyrirheit að setja fjölskylduna og heimilin í forgang og það höfum við gert. Við fórum í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna og þær eru nú með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum. Við komum á fót nýju húsnæðiskerfi sem á næstu árum mun veita þúsundum einstaklinga og fjölskyldna öruggt húsaskjól. Við höfum skapað grundvöll fyrir umtalsverðar launahækkanir, ekki hvað síst til þeirra lægst launuðu án þess að missa verðbólguna úr böndunum. Hvað þýðir þetta? Lægri skuldir og hærri laun fyrir fjölskyldurnar og heimilin. Við heimtum hundruð milljarða úr höndum kröfuhafa sem gjörbreytt hefur skuldastöðu ríkissjóðs og gert okkur kleift að auka enn við velferðina. Nýtt almannatryggingakerfi sem skilar tugum milljarða til viðbótar til ellilífeyrisþega á næstu árum liggur nú fyrir Alþingi til samþykktar fyrir kosningar. Við höfum forgangsraðað í þágu heilbrigðiskerfisins með því að hækka laun okkar öfluga og góða starfsfólks og bætt tækjakost. Nýjasta risaskrefið er svo nýtt greiðsluþátttökukerfi til að tryggja að stuðningur samfélagsins fari til hinna veikustu. Hvað þýðir þetta? Öflugra velferðarkerfi fyrir fjölskyldurnar og heimilin.

Þrátt fyrir allan þennan árangur eða kannski frekar vegna hans og sterkrar stöðu ríkissjóðs eru verkefnin fram undan mörg og stór. Við erum vonandi að ná samkomulagi við öryrkja til að tryggja þeim kjarabætur á borð við þær sem ellilífeyrisþegar munu fá með nýjum lögum um almannatryggingar. Við þurfum að hækka enn frekar hámark fæðingarorlofs og lengja það fyrir báða foreldra og við þurfum að halda áfram með tilraunaverkefni með BSRB um styttingu vinnuvikunnar í þágu fjölskyldna. Með hærri launum, styttri vinnutíma og lengra fæðingarorlofi getum við gert foreldrum kleift að eyða meiri tíma með börnunum sínum. Og áfram þurfum við að vinna að því að losa heimilin af skuldaklafa bankanna.

Uppbygging virks leigumarkaðar er hafinn með nýjum húsnæðislögum. Með honum fær tekjulægra fólk, svo sem aldraðir, öryrkjar, námsmenn og láglaunafólk, möguleika á tryggri langtímaleigu og svigrúm til að safna fyrir útborgun í eigin húsnæði. Ég spyr enn á ný: Hvað þýðir þetta? Raunverulega valkosti í húsnæðismálum fyrir fjölskyldurnar og heimilin.

Ríkið hefur nú endurheimt tvo stærstu bankana af þremur úr klóm kröfuhafa. Nú þegar eru komnar fram hugmyndir um einkavæðingu eða almannavæðingu eins og það heitir víst núna. Í samþykktum síðasta flokksþings framsóknarmanna segir að Landsbankinn eigi að vera samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það að markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Með breyttri eigendastefnu ríkisins mætti gera Landsbankann að raunverulegum samfélagsbanka en ekki þeim hagnaðardrifna einkabanka sem vill svo til að er í eigu ríkisins líkt og nú er. Samfélagsbankar eiga ekki að skila gríðarlegum hagnaði til eigenda sinna heldur einbeita sér að því að veita góða þjónustu á góðu verði. Það þýðir betra fjármálakerfi með lægri vöxtum sem vinnur fyrir fjölskyldurnar og heimilin í landinu í stað þess að gera okkur öll að skuldaþrælum þess.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Ég var 12 ára gömul þegar ég flutti með móður minni, bróður og litlu systur í íbúð í félagslegu húsnæðiskerfi, sem þá var, í verkamannabústaðina í Breiðholti. Þá upplifði ég í fyrsta sinn að eiga öruggt þak yfir höfuðið eftir að hafa flækst milli leiguíbúða og landshluta um árabil. Ég veit að öruggt húsnæði er einn af hornsteinum góðs fjölskyldulífs og gott fjölskyldulíf er undirstaða heimilanna. Eftir því hef ég unnið.

Ég vil búa í landi þar sem við eigum öll jafna möguleika, hvort sem við ólumst upp hjá einstæðum mæðrum eða hjá vel stæðum foreldrum. Ég vil að við öll höfum jöfn tækifæri sama hverra manna við erum eða hvaðan við komum. Þess vegna er ég í stjórnmálum og þess vegna er ég í Framsóknarflokknum.