145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:10]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mig langar til þess að nota þessar eldhúsdagsumræður í kvöld til að rifja upp af hverju við göngum til kosninga að hausti. Það er nefnilega tilhneiging til að það falli í gleymsku í öllu því havaríi sem er í gangi á mölbrotnu stjórnarheimilinu þessa dagana.

Við göngum til kosninga vegna þess að fólk er búið að fá nóg. Dropinn sem fyllti mælinn var Kastljóssþáttur einn 3. apríl í ár þar sem þáverandi forsætisráðherra vor gerði sjálfan sig og Ísland að fífli með því að ljúga. Loksins kom í ljós hvernig íslenskt bankakerfi hafði verið holað að innan af fáum með því að færa gróða af ofursölu fyrirtækja sem voru fengin með lánum úr íslenska bankakerfinu úr landi í skattaskjól á borð við Tortólu.

Enn eitt spillingarmálið. Enn einu sinni. En þetta var mun sárara. Þarna vorum við gerð að athlægi á alþjóðavísu.

Virðulegi forseti. Við göngum til kosninga núna hálfu ári á undan áætlun vegna þess að tuttugu þúsund manns komu á Austurvöll daginn eftir þennan víðfræga Kastljóssþátt til að sýna hneykslun sína, til þess að mótmæla, til þess að segja að nú væri bara komið nóg. Tuttugu þúsund manns því að það var loksins komið á hreint að það væru í reynd tvær þjóðir í þessu landi. Þjóðin sem má og hin sem ekkert má. Þjóðin sem á og hin sem ekkert á.

Dropinn holar steininn ef hann fellur oft. Margir dropar hafa dunið á steinhjarta íslenskra stjórnmálamanna undanfarin ár og það stingur.

Tuttugu þúsund manns komu saman á Austurvelli vegna þess að það var komið nóg. Það var komið nóg af því að skýjaborgir stjórnmálamanna gerðu þá ódauðlega og ósnertanlega. Teflonhúðaður stjórnmálamaður fortíðarinnar er ekki framtíðin. Það átti að vera hluti af lærdóminum eftir hrun. Traust til Alþingis er í sögulegri lægð og samt er allt að ganga svo frábærlega. Það er allt og uppleið og ég veit ekki hvað og hvað. En á sama tíma hefur hvert málið sem lyktar af spillingu og eiginhagsmunapoti komið fram. Lekamálið, riftun á aðildarviðræðum við ESB, Orka Energy, Borgunarmálið og svo loks Panama-lekinn.

Þegar þessi önnur ríkisstjórn kjörtímabilsins tilkynnti myndun sína á látlausum blaðamannafundi á tröppum Alþingishússins tilkynnti hún einnig að það yrði kosið í haust. Þetta var loforð sem ríkisstjórnin gaf þjóðinni. Ekki stjórnarandstöðunni. Í beinni útsendingu í þokkabót með loðnum orðum um einhver mikilvæg mál sem þyrfti fyrst að klára. Hæstv. ríkisstjórn er hins vegar ekki að gera neinum greiða með því að troða sínum málum í gegn með offorsi á síðustu stundu í nafni þess að klára þurfi öll mikilvægu málin sem eru farin að slaga upp í fjölda arabískra nátta í samnefndum sagnabálki. Þessi ríkisstjórn er nefnilega búin að missa traust, trúverðugleika og umboð.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er nauðsynlegt að byggja traust. Við gerum það ekki með því að ana áfram og neita að hlusta eða axla ábyrgð. Traust á stjórnmálum hvarf í hruninu. Þessi ríkisstjórn og sú sem á undan sat á þessu kjörtímabili, það var í þeirra verkahring að byrja að byggja upp þetta traust og þau brugðust. Þess vegna göngum við til kosninga í haust.

Góðir landsmenn. Þetta kjörtímabil hefur verið kjörtímabil lyga og svikinna loforða. Það var logið að okkur í lekamálinu og það var logið að okkur um skattaskjól. Loforð beggja stjórnarflokka um þjóðaratkvæðagreiðslu voru svikin og loforð stjórnvalda til þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá hefur aldrei verið efnt. Til að stuðla að því að þetta gerist ekki aftur er nauðsynlegt að ráðast í róttækar kerfisbreytingar. Við þurfum m.a. að samþykkja nýja stjórnarskrá sem tryggir gagnsæi, pólitíska ábyrgð valdhafa og bindandi aðkomu þjóðarinnar á milli kosninga. En við þurfum líka að breyta stjórnmálunum, hvernig við tölum og hegðum okkur. Leiðin til að auka traust milli þjóðarinnar og valdhafa í samfélaginu er ekki endalaust tal um betrumbót, skýjaborgir loforða og vona, það er fullreynt.

Af hverju eiga kjósendur að trúa því að allt verði frábært ef þú kýst þennan eða hinn? Að heilbrigðiskerfið verði fullkomið? Að aldraðir og öryrkjar fái hitt og þetta? Að við verðum best í heimi og ég veit ekki hvað og hvað þegar loforðin hafa alltaf verið svikin? Kerfisbreytingar eru einfaldlega nauðsynlegar ef við ætlum að standa við það að byggja undir nýja Ísland, Ísland sem við einsettum okkur að byggja eftir hrun. Og við gerum það bara ef við erum ein þjóð sem vinnur saman í einu landi sem við eigum saman og ein þjóð þar sem sömu lög, sömu skattar og sama heilbrigðiskerfi er jafn gott fyrir alla.