145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Á nýju kjörtímabili munum við hafa einstakt tækifæri til að leggja nýjar grundvallarreglur efnahagslífsins þar sem hagsmunir venjulegs fólks verða settir í öndvegi. Við þurfum að grípa það tækifæri. Vöxtur sem byggir á bólugróða eykur á misskiptingu og skilur ekkert eftir þegar bólan er búin annað en að gera örfáa ríka. Við þurfum framleiðniaukningu og fleiri störf sem bjóða há laun, enda vinnum við lengur fyrir lægri laun en Norðurlandaþjóðirnar og við berum minna úr býtum hér en í grannlöndunum. Þannig getum við ekki haldið áfram. Við þurfum efnahagslegan stöðugleika, lækkun vaxta, alvörugjaldmiðil og opnun landsins fyrir samkeppni. Um allt land þarf uppbyggingu innviða, betri samgöngur og fjarskipti og meiri og fleiri tækifæri í menntun sem styðja svo aftur við sköpun fjölbreyttari og sífellt verðmætari starfa. Mikilvægur þáttur til að tryggja samkeppnishæfni landsins og halda í fólkið okkar er að fjárfesta í grunnstoðum opinberrar velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi sem rekið er fyrir almennt skattfé. Það er ekki bara vitlaust að loka framhaldsskólum fyrir fólki yfir 25 ára aldri og það er ekki bara sársaukafullur óþarfi að hafa áralanga biðlista eftir augnsteinaaðgerðum, liðskiptum eða lagfæringu á gáttaflökti, það er beinlínis vondur bisness og dregur úr framleiðni og velsæld fólks.

Við erum heppin að búa við sterkar útflutningsatvinnugreinar, en við þurfum að styrkja þann grunn frekar og tryggja almenningi arð af auðlindunum.

Allir sjá nú og sífellt fleiri viðurkenna jafnvel í ólíkum flokkum réttmæti stefnu okkar í Samfylkingunni um fyrningarleiðina. Við sjáum ferðaþjónustuna sem hefur sprungið út á undanförnum árum, en við sjáum líka að þar er mikið ógert í að hún leggi af mörkum með eðlilegum hætti og að ferðamenn greiði fyrir þá þjónustu sem nauðsynlegt er að byggja upp vegna þeirrar miklu fjölgunar. Við eigum ekki að greiða fyrir innviði ferðaþjónustunnar af almennu skattfé frekar en innviði sem aðrar atvinnugreinar kalla á.

Við þurfum að fá arð af ríkiseignum og gefa ófrávíkjanleg fyrirmæli um samkeppni við sölu þeirra. Borgunarhneykslið á að verða einsdæmi, ekki fordæmi. Þess vegna eigum við ekki að selja fjármálakerfið óbreytt, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins er að fitja upp á þessa dagana. Ef það verður gert munu nýir vildarvinir kaupa bankana og rukka íslenskan almenning og fyrirtæki um ofurvexti til að fá inn fyrir kaupverðinu — alveg eins og síðast þegar bankarnir voru seldir. Fyrst þarf að laga bankakerfið að þörfum almennings því að tækifærið til að gera það verður farið þegar ríkið er búið að selja sinn hluta í bönkunum. Við eigum að brjóta bankana upp og raða hlutunum upp á nýtt. Sumir þættir bankarekstrar eiga einfaldlega ekki heima með öðrum í fákeppnisumhverfi. Grunngreiðslukerfin eiga að vera aðskilin öðrum rekstri og öllum aðgengileg og koma þarf í veg fyrir áhættufjárfestingar með innstæður fólks og binda enda á ofurvald fjármálafyrirtækja yfir fólki.

Virðulegi forseti. Fram undan eru kosningar til Alþingis. Ég veit vel að ásýnd stjórnmálanna er oft neikvæð. Mig langar samt að nota þetta tækifæri til að koma stjórnmálunum almennt til varnar. Við megum ekki gleyma því að þegar markaðsöflin brugðust þannig að eftir var tekið um allan heim árið 2008 og kreddan um að markaðir fyndu alltaf leið til að leiðrétta sig sjálfir var endanlega afsönnuð og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar var í húfi reyndi á stjórnmálin og þau stóðust það próf. Þrátt fyrir allt hafa ákvarðanir sem teknar hafa verið síðan í þessum sal skilað Íslandi í fremstu röð. Stjórnmálin stóðust prófið vegna þess að þið brugðust ekki, tókuð þátt í stjórnmálastarfi, mættuð á kjörstað og létuð áherslur ykkar endurspeglast í ólíku gengi flokka og fólks frá einum tíma til annars.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á mannvalinu í þessum sal fyrir ykkar tilverknað við undanfarnar kosningar. Þið hafið framhaldið í ykkar höndum. Ef við viljum gott samfélag þarf fólk sem vill vel að láta til sín taka, taka afstöðu og leggja gott af mörkum. Munum öll eftir því á kjördag og nýtum atkvæðisréttinn til að gera gott land betra.