145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hlutverk okkar í þessum sal er núna að tala fyrir framtíðinni, þeirri framtíð sem við getum byggt saman. Við getum talað af bjartsýni, við getum talað af gleði, fyrir þeim tækifærum sem landið okkar hefur upp á að bjóða og hvernig við getum skapað ungu fólki spennandi framtíð hér á landi fyrir okkur öll og fyrir Ísland. Það gerum við fyrst og fremst og best með því að tryggja hér stöðugleika.

Við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Við eigum að bera okkur saman við aðrar þjóðir til að meta samkeppnishæfni okkar. Okkur hefur ekki tekist nægilega vel að festa í sessi stöðugleika á undanförnum áratugum. Á Íslandi er lág verðbólga. Á Íslandi hefur verið kaupmáttaraukning. Á Íslandi er nú nánast ekkert atvinnuleysi. Á Íslandi lækka skattar. Á Íslandi hafa skuldir heimilanna lækkað. Á Íslandi hafa skuldir fyrirtækja lækkað. Á Íslandi er nú forsenda fyrir stöðugleika.

Í síðustu kosningum ræddum við um vandamálin, um atvinnulífið og nauðsyn þess að örva það og hvetja, að stöðva hallarekstur ríkisins og standa með heimilunum, að auka verðmætasköpun og ekki síst að reisa aftur við bjartsýni og áræðni fólks til að skapa sér sína eigin framtíð. Enginn þarf að velkjast í vafa um að okkur hefur tekist vel og árangurinn talar sínu máli. Við erum sannarlega á réttri leið.

En við höldum því alls ekki fram að allt sé hér í stakasta lagi og ekkert þurfi að laga. Það er mikilvægt að hlusta og heyra gagnrýni og taka hana alvarlega, að bregðast við og bæta úr. En við byggjum á traustum og góðum grunni og við getum hvert og eitt tíundað mörg verkefni sem við viljum vinna að.

Virðulegi forseti. Byggðir landsins hafa sannarlega mismunandi verkefni og tækifæri. Í grunninn byggir landsbyggðin á gömlu grundvallaratvinnuvegum okkar, iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustu og nú ferðaþjónustu ásamt nýtingu náttúruauðlinda. Það skapar okkur tækifæri en líka nokkra sérstöðu. Eftirspurn eftir hreinum matvælum er að aukast og vitund um hollustu og heilnæmi er vaxandi. Þó ber á því að í samfélagi okkar er minnkandi skilningur á hagsmunum þessara atvinnugreina. Það er verkefni sem við verðum að sinna. Það vantar og oft skilning í umræðu um að verðmæti þurfi að verða til þannig að hægt sé að reka samfélagið. Það er ekki hægt að lofa og eyða ef skilningur er ekki á því hvernig á að skapa verðmæti til þess.

Við okkur blasa mörg tækifæri til sóknar. Iðjukostir sem byggja á notkun á grænni raforku horfa nú til Íslands, iðjukostir sem byggja á vel menntuðu starfsfólki með tæknimenntun og því að hafa aðgengi að raforku sem jú er í verulegu magni en ekki í líkingu við þá stóriðju sem við helst þekkjum. Við byggjum líka byggðir okkar í vaxandi mæli á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er í mínum huga það hreyfiafl sem helst er að breyta sveitum landsins. Umræða um ferðaþjónustu í þessum þingsal hefur jafnan snúist um hvernig hægt sé að skattleggja hana. Það er nálgun sem er örugglega ekki sú rétta. Horfum frekar til þess hvernig þessi öfluga atvinnugrein getur styrkt okkar samfélag og vinnum með henni að því.

Umræðu um ferðaþjónustu verðum við ekki síst að nálgast út frá eignarréttinum. Við höfum verið of feimin við að láta þá hlið vinna með okkur að aukinni uppbyggingu á ferðamannastöðum sem við vildum gjarnan hafa í betra lagi. Ég er ekki að boða gjaldtöku af því að njóta landsins og horfa á landið heldur miklu frekar tækifæri til þeirra sem vilja selja grundvallarþjónustu á áningarstöðum.

Þá á ferðaþjónustan ekki síður að láta sig varða umræðu sem í vaxandi mæli ber á, að með aukinni umferð ferðamanna skapist árekstrar við þá byggð og athafnalíf sem fyrir er. Því er mikilvægast af öllu að varðveita sem best samstöðu og samtal um þessa mikilvægu atvinnugrein. En ferðaþjónustan og forsendan fyrir byggð um land allt eiga sameiginlegt að þurfa góða vegi og góð fjarskipti. Á þessu ári næst stór áfangi í metnaðarfullu verkefni okkar að gerbylta fjarskiptainnviðum landsins.

Ísland ljóstengt verkefnið undirbyggir að næstum allt láglendi á Íslandi í byggð geti í framtíðinni boðið upp á þráðlaust farnet í besta gæðaflokki afkasta og öryggis. Það þýðir að við lok þessa átaks árið 2020 getur Ísland státað af einu best tengda landi við alnetið fyrir íbúa okkar og gesti þess. Það skapar okkur mikla möguleika til þess að miðla upplifun af Íslandi í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum.

Góðir landsmenn. Með gleði og bjartsýni göngum við til kosninga í haust. Í kosningunum í haust skulum við kjósa stöðugleikann. — Góðar stundir.