145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nú líður að lokum þessa löggjafarþings og kosningar eru fram undan þar sem kjósendur vega og meta verk okkar sem höfum skipað Alþingi undanfarið kjörtímabil. Það er komið að því að við veljum stefnuna sem við teljum farsælasta fyrir samfélag okkar til næstu ára og stjórnmálamennina sem okkur þykir best treystandi fyrir þeim völdum og áhrifum sem felast í þingsetu og ríkisstjórnaraðild. Kosningarrétturinn, rétturinn til að taka þátt í ákvarðanatöku um hvernig samfélag við viljum hafa er óumræðilega mikilvægur. Hinn almenni kosningarréttur er styrkasta grunnstoð lýðræðisins og kosningar til þjóðþingsins farvegurinn fyrir vald fólksins til að móta samfélagið og stýra því. Val hvers og eins mótast af viðhorfi viðkomandi til þess hvernig samfélagsmálum verði best hagað en ekki síður af trausti á þeim einstaklingum sem bjóða sig fram til að framfylgja stefnunni sem stjórnmálahreyfingarnar bera fram.

Eldhúsdagsumræðurnar ber nú að á óvenjulegum tíma og sama er að segja um alþingiskosningarnar. Eins og flestir vita á það sér þær skýringar að í vor sem leið varð þáverandi forsætisráðherra uppvís að slíkum óheilindum og lítilsvirðingu fyrir embætti sínu og hag þjóðarinnar, sem kennd hafa verið við Panama-skjölin, að almenningur þusti tugþúsundum saman til mótmæla hérna fyrir utan Alþingishúsið. Trúnaður hafði verið brotinn. Traustið var horfið og mótmælin voru til vitnis um að kjósendum var freklega misboðið og vildu afturkalla það umboð sem þeir höfðu veitt stjórnarliðum í alþingiskosningunum árið 2013.

Góðir landsmenn. Eins og endranær leggja stjórnmálahreyfingarnar fram mismunandi stefnu fyrir kosningarnar. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum að vanda fram ítarlega stefnuskrá sem grundvallast á jöfnuði, jafnrétti, félagshyggju, náttúruvernd og mannréttindum. Við teljum að með því að grundvalla þjóðskipulag okkar og efnahag á félagshyggju í stað gróðahyggju muni okkur farnast betur. Við höfum ekki trú á því að setja einföld hagnaðarsjónarmið fjármagnseigenda ofar öllu öðru og við lítum svo á að jöfnuður og jafnrétti séu grundvallarforsendur farsældar einstaklinga og samfélags. Við teljum velferðarkerfið afar mikilvægt og við viljum að allir landsmenn njóti þess og þeir sem geti leggi sitt af mörkum til þess að viðhalda því.

Það er vissulega krefjandi verkefni að viðhalda velferðarkerfi okkar og tryggja framtíð þess. Til þess þarf bæði gott skipulag í samtímanum og skýra framtíðarsýn en ekki síst trausta fjármögnun. Þar eru skatttekjur mikilvægastar og að mati okkar vinstri grænna ætti ekki að leita annað eftir fé til að greiða fyrir velferðarþjónustu. Við höfum ekki áhuga á að krefja sjúkt fólk um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu eða ungmenni um skólagjöld. En við ætlumst til þess að greiddir séu skattar af skattstofnum. Við gerum kröfu um að arður af náttúruauðlindum falli í hlut allra landsmanna en ekki fámennra hagsmunahópa. Við viljum að greiddur sé sanngjarn skattur af fjármagnstekjum og við höfum alls ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim sem víkja sér undan skyldu sinni við samfélag sitt í þessum efnum.

Góðir landsmenn. Því miður hefur margoft á þessu kjörtímabili verið tilefni til að gagnrýna stefnu og aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda hvað varðar velferðarmál og uppbygging innviða samfélagsins hefur rekið á reiðanum. Heilbrigðismálin, samgöngumálin, hvort heldur vegirnir eða hið rándýra innanlandsflug, ljósleiðaravæðingin, löggæslan, skólamálin og nú síðast breytingar á lífeyrismálum — það er eiginlega sama hvar drepið er niður fæti, risavaxnar kerfisbreytingar án þverpólitísks samtals er það sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á.

Eitt af þeim hitamálum sem við vinstri græn höfum gagnrýnt ítrekað eru áform og aðgerðir menntamálaráðherra í skólamálum og breytingar á LÍN en það frumvarp eykur á ójöfnuð og vegur að frelsi og jafnrétti til náms þar sem áherslan er eins og oft áður á hagsmuni fárra útvalinna en ekki samfélagslega heildarhagsmuni. En það kemur líklega ekki á óvart. Þetta er hægri stjórn og hefur í öllu hagað sér sem slík. Hinum efnameiri er hlíft við skattgreiðslum en álögur á þá sem minna hafa voru hækkaðar. Gleymum ekki virðisaukaskattsbreytingunni sem gerð var á kjörtímabilinu þegar við hugleiðum þetta. Gleymum heldur ekki lækkun veiðigjaldanna eða afnámi auðlegðarskattsins. Gleymum ekki harðneskjulegum mótþróanum við að hækka greiðslur til öryrkja og aldraðra og munum að enginn greiðir matarreikninginn sinn með afsökunarbeiðni vegna slælegrar frammistöðu.

Munurinn á hægri og vinstri stefnu er ávallt augljós þótt stundum sé öðru haldið fram. Það er aldrei erfitt að greina á milli félagshyggju og jafnaðarstefnu annars vegar og sérhyggju og kapítalisma hins vegar. Það er alltaf augljóst þegar réttur hinna sterkari og ríkari er meira virtur en réttur þeirra sem standa höllum fæti og hafa af litlu að taka. Þegar stjórnvöld hleypa afli auðmagnsins að stjórnartaumunum skapast ávallt félagslegt óréttlæti. Í komandi alþingiskosningum gefst tækifæri til að skipta um stefnu og stíl. Það er unnt að gera svo miklu betur til að tryggja velferð landsmanna og það er brýn þörf á að auka jöfnuð meðal okkar og stuðla að jafnrétti kynja og einstaklinga. Það þarf að styðja við atvinnulífið með uppbyggingu innviða sem hafa verið látnir drabbast niður. Umhverfi og náttúra, undirstöður lífs okkar og lífskjara, kalla á athygli okkar og vernd gegn skefjalausri ásókn gróðaafla með skammtímasjónarmið ein fyrir augum.

Það eru mörg verk að vinna en tækifærin til að koma góðu til leiðar eru líka mörg í okkar frábæra landi.

Kæru landsmenn. Gerum betur en gert hefur verið undanfarið. Valdið til breytinga er hjá okkur. Við förum með atkvæðisréttinn. Notum hann í þágu íslensks samfélags í heild. Það er betra þegar við gerum þetta saman.