145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:40]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti og góðir landsmenn. „Segið mér hvernig samfélag býr að börnum og ungmennum og sérstaklega þeim sem standa höllum fæti félagslega, vegna fátæktar, fötlunar eða skerðinga, og ég skal segja þér hvort það er gott eða vont samfélag.“

Ég man satt að segja ekki hvar ég heyrði þessi orð fyrst en þau gripu mig strax. Ég gleymi þeim aldrei og vil alls ekki gleyma þeim því að ég verð sífellt sannfærðari um að þetta er svona og alls ekkert öðruvísi.

Þetta er mælikvarðinn sem ég er fullkomlega sannfærður um að leggja eigi á samfélagið, stjórnmálin og stjórnsýsluna. Þetta er leiðarljósið og aðalmarkmiðið sem við sem sitjum hér á Alþingi og hefur verið treyst til að fara með vald fyrir hönd og í þágu almennings, eigum að hafa alla daga í öllum okkar umræðum og gerðum.

Það hef ég gert og það ætla ég að gera áfram, hvar sem ég verð, hvort sem ég verð áfram í þessum sal eða annars staðar.

En góðir landsmenn. Hvernig kemur samfélag okkar út þegar þessi mælikvarði er lagður á það? Og hvernig stöndum við okkur sem hér sitjum þegar verk okkar eru metin með þessum mælikvarða? Og hver er frammistaða núverandi ríkisstjórnar mæld með þessum kvarða? Hefur hún starfað og forgangsraðað í þágu barna og ungmenna og sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti?

Mér finnst samfélag okkar alls ekki standa sig nógu vel. Mér finnst að við sem sitjum hér á Alþingi getum gert miklu betur. Og mér finnst ríkisstjórnin hafa kolfallið á þessu prófi.

Hvers vegna segi ég það, góðir landsmenn? Vegna þess að staðreyndirnar eru þessar: Þann 20. janúar sl. kynnti UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, skýrslu sína um stöðu barna hér á landi. Niðurstöður hennar sýna að meira en sex þúsund börn líða efnislegan skort hér á landi. Er það ásættanlegt að í velmegunarsamfélagi okkar skuli meira en sex þúsund börn lifa við skort á efnislegum gæðum og alvarlega mismunun og fara á mis við margvísleg tækifæri sem öðrum börnum bjóðast og finnast sjálfsögð?

Um síðustu áramót biðu rúmlega 800 börn eftir greiningu og úrræðum vegna ADHD og annarra raskana og á sama tíma sitja inni á Litla-Hrauni milli 60 og 70% fanga, mest ungir menn, með slíkar raskanir, menn sem gætu nú verið virkir þátttakendur í samfélaginu hefðu þeir fengið viðunandi aðstoð í æsku.

Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni er komin að þolmörkum vegna fjárskorts og manneklu með tilheyrandi vandkvæðum fyrir börnin sjálf og foreldra þeirra. Okkur skortir fjármagn til að reka leikskóla- og grunnskóla skammlaust. Hvernig er eiginlega gefið hjá okkur og skipt milli ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja menntun og framtíð barnanna okkar? Hér er ekki gjaldfrjáls skóli, sem þýðir augljósa hættu á mismunun barna til menntunar á grundvelli efnahags. Viljum við brjóta þannig gegn mannréttindum fátækra barna og skerða um leið tækifæri þeirra til að bæta stöðu sína í framtíðinni með menntun og þar með betri möguleikum á atvinnu?

Er ekki augljóst að það á að vera okkar mikilvægasta markmið og leiðarljós alla daga að haga störfum okkar þannig að þessi ungmenni fái öll tækifæri til að njóta sín eins og áhugamál og hæfileikar hvers og eins standa til?

Flóttafólki með börn er ítrekað vísað úr landi og út í algera, fullkomna óvissu, jafnvel þó að börnin séu með sjúkdóma sem krefjast sérhæfðrar læknisþjónustu sem ekki er hægt að veita í fátækum löndum.

Eftir næstum tíu ára aðdraganda tókst okkur loks að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En þá kemur í ljós að stjórnkerfið hefur vanrækt að undirbúa fullgildingu mikilvægs viðauka við hann. Hvað segir það um forgangsröðun?

Herra forseti. Góðir landsmenn. Mannréttindi snúast um jöfn tækifæri fólks. Það má hafa á því allar skoðanir hvort æskilegt sé að mikill eða lítill efnahagslegur jöfnuður sé í samfélögum. Það er pólitík. Og þó að ég sé sjálfur sannfærður um að mikill ójöfnuður sé siðlaus og mjög skaðlegur samfélögum og einstaklingum ætla ég ekki að halda því fram að öðrum sé ekki heimilt að líta þannig á það.

En jöfn tækifæri fólks eru mannréttindi sem við höfum sem ríki og þjóð skuldbundið okkur til að tryggja fólki og eðli máls samkvæmt alveg sérstaklega hópum sem eru og hafa lengi verið beittir miklum órétti og margvíslegri mismunun. Þess vegna skuldbundum við okkur til að virða og framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þess vegna höfum við nú skuldbundið okkur til að virða og framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Þetta er ekki spurning um skoðanir, herra forseti. Þetta eru beinharðar skyldur sem stjórnvöld eiga að taka grafalvarlega. En gera þau það? Þessi ríkisstjórn hefur mjög lítinn áhuga á jöfnuði og það er líklega skoðun þeirra ráðherra sem í henni sitja og þeirra stjórnmálaflokka sem að henni standa að jöfnuður sé ekki æskilegur. Ég er algjörlega ósammála því.

En það er þó miklu verra og gríðarlega mikið áhyggjuefni fyrir fólkið í þessu landi, og alveg sérstaklega börn og ungmenni sem eiga að erfa landið, að þessi ríkisstjórn hefur einnig mjög lítinn áhuga á jöfnum tækifærum fólks. Verk hennar sýna það og sanna svo ekki verður um villst. Þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu allt annarra hópa og hagsmuna en barna og ungmenna. Þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu skammtímamarkmiða og í þágu sérhagsmuna um sameiginlegar auðlindir til lands og sjávar.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við þurfum nýja ríkisstjórn í þessu landi sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega og tryggir að allir þegnar þjóðarinnar fá notið arðs af auðlindum sínum, ekki bara fáeinir útvaldir. Þannig og aðeins þannig getum við búið hér til gott og réttlátt samfélag, samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt, samfélag sem setur málefni barna sinna og þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í forgang, samfélag sem tekur opnum örmum nýjum þegnum sem hér vilja búa, og síðast en ekki síst tryggir eldri borgurum sínum áhyggjulausa göngu inn í sólarlag lífs síns.

Góðir landsmenn. Þannig samfélag lendir ekki í hruni, þannig samfélag setur bönd á græðgina, það hafnar hrokanum og metur heiðarleika og ábyrgð miklu meira en munað og auð. Þannig samfélag viljum við í Bjartri framtíð bjóða þegnum Íslands upp á.

Góðir landsmenn. Hæstv. forseti. Ég vil þó að lokum nota tækifærið og þakka hinum hv. 62 þingmönnunum fyrir samfylgdina sl. þrjú og hálft ár. Þetta hefur verið ánægjuleg en oft erfið ferð og oft hefur mikið gengið á. En við höfum líka sýnt að við getum unnið saman að góðum málefnum ef við viljum það. Ég vona að allir þeir sem munu starfa hér á þinginu eftir næstu kosningar hafi það að leiðarljósi að starfa saman að heill og hamingju þessarar þjóðar, því að þegar öllu er á botninn hvolft er starfslýsing okkar: farsæld þjóðar. — Góðar stundir.