145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Kæri borgari. Það er vinsælt að bölsótast út í stjórnmálin og stjórnmálamenn, kalla þá öllum illum nöfnum, ómögulega og ónýta o.s.frv. Þegar ég rekst á þessa orðræðu, sem gerist auðvitað fyrst og fremst á netinu, þá legg ég í vana minn að reyna að finna út úr því hvað það er sem fólk er að reyna að segja vegna þess að stundum er hægt að taka það til sín. Stundum er hægt að nota það með einhverjum hætti til að komast að því í það minnsta hvað það er sem viðkomandi er að reyna að segja.

Stundum er þetta bara bölmóður og bara leiðindi og neikvæðni og fúkyrðaflaumur. Þá svara ég af og til: Bjóddu þig fram. Og svarið sem ég fæ er misjafnt en yfirleitt er hægt að súmmera það upp í fjórum orðum: Ég get það ekki. Ég er bara venjulegur launamaður og þarf að ná endum saman í lok mánaðarins. Ég er í félagslegum aðstæðum sem ég slepp ekki undan. Ég þarf að sjá um fjölskyldu og vini. Ég var böstaður með jónu á Austurvelli og er kominn á sakaskrá. Virðulegi forseti. Hv. þingmaður. Ég get það ekki.

Mig langar að spyrja þig, kæri borgari: Ef þú taldir árið 2012 að mikilvægustu verkefnin í stjórnmálum fram undan væru að efla lýðræðið, verja borgararéttindi og lýðræðisumbætur, standa í vegi fyrir vilja ýmissa afla til þess að ganga á þessi borgaralegu lýðræðislegu réttindi, ef þú taldir að fíkn væri heilbrigðisvandamál en ekki glæpur, ef þú taldir að gagnsæi fyrir yfirvöld og friðhelgi einkalífs fyrir einstaklinginn, fyrir borgarann, væri eitt af mikilvægustu málunum fram undan, þá eru einhverjar líkur á að þú hafir kosið Pírata. Kannski ekki og svo sem nægar ástæður fyrir því ef út í það er farið. Kannski trúðir þú því ekki að við gætum gert neitt í þessu. Kannski sástu lítinn flokk með sjóræningjafána í lógóinu á svörtum bakgrunni með skrýtið nafn og skrýtnu fólki og hugsaðir með þér: Þetta gengur aldrei. Þetta er ekki hægt. Þetta er tilgangslaust og skiptir engu máli hvort ég kýs þennan flokk eða einhvern annan. En hefðir þú trúað því að eftir tvö ár, eftir að við höfðum komist inn með einhver 5%, mjög lítið, færi þessi litli, skrýtni flokkur allt í einu að klífa upp í skoðanakönnunum og endaði að lokum með yfir þriðjung fylgis og væri þar í heilt ár? Hefðir þú trúað því árið 2012? Ég hefði ekki trúað því árið 2012. Hefðir þú trúað því að eftir allt dramað og vaxtarverkina sem vissulega hafa verið miklir og erfiðir á köflum mundi þessi flokkur detta niður í fjórðungsfylgi? Og slást við Sjálfstæðisflokkinn það sem eftir væri kjörtímabilsins um titilinn stærsti flokkurinn á Íslandi samkvæmt skoðanakönnunum? Ég hefði ekki trúað því.

Hefðir þú trúað því árið 2012 að í eitt og hálft ár af kjörtímabilinu mundi fólk ekki ræða ríkisstjórnarmyndun án samhengis við Pírata? Píratapartíið með sjóræningjafánann á lógóinu með svörtum bakgrunni og skrýtna nafnið og skrýtna fólkið? Ég hefði ekki trúað því þá. Ég trúði því reyndar varla á sínum tíma að við mundum yfir höfuð ná inn. Ég get svo sem sagt það núna, ég trúði því ekki þá.

Ég er ekki að segja þetta, ekki að nefna þetta, til þess að gorta. Ég er að benda á að þetta gerðist. Jafnvel ef þú styður einhvern annan flokk og upplifir þig máttlausan, mundu að þetta gerðist. Þetta átti sér stað. Litli skrýtni flokkurinn með skrýtna nafnið og sjóræningjafánann í lógóinu með svörtum bakgrunni. Við vissum ekkert að þetta mundi gerast 2012. Við sáum fram á það ómögulega en við reyndum samt. Og það skiptir máli að reyna samt.

Á kjörtímabilinu höfum við vissulega bara verið 5% flokkur á þingi en höfum reynt af fremsta megni að sinna okkar skyldum eins og best við getum. Ég tel persónulega að við höfum staðið undir þessum 5%. En það er annarra að meta það, borgarans að meta það og kjósandans. En eftir stendur að það sem virðist ómögulegt gerist. Ég veit ekki hvernig þú, kæri borgari, getur breytt heiminum en ég segi það með þeirri sannfæringu sem mannleg sál er megnug um að þú getur það víst.