145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú eru aðeins þrír dagar eftir af þessu þingi samkvæmt starfsáætlun með þessum meðtöldum. Á dagskrá í dag er stórt mál, stór kerfisbreyting. Það mál er enn í 1. umr. og á eftir að fara til nefndar og í gegnum tvær umræður til viðbótar. Hér eru fjáraukalög líka í 1. umr. og síðan nokkur mál, tvö til 2. umr. og eitt til 3. umr.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig í ósköpunum menn hafi hugsað sér að næstu dagar verði skipulagðir og að hér verði staðið við starfsáætlun. Ég tel reyndar augljóst að það sé tómt mál að tala um að fara með stórar kerfisbreytingar í gegnum þingið á þremur dögum. Það er útilokað. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvernig gangi að skipuleggja þingdagana sem eftir eru.