145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er skondið í þessu öllu saman að það á að kjósa 29. október, starfsáætlunin er til 29. september og nú stöndum við stjórnarandstöðuþingmenn hér og segjum: Við viljum standa við áætlunina.

Við vitum ekki hvaða mál ríkisstjórnin vill afgreiða. Hún leggur ekki einu sinni fram lista, eins og sagt er. Þetta er fáránlegt, það eru tveir dagar eftir og við getum afgreitt þrjú, fjögur stór mál á þeim tíma og gert það sómasamlega þannig að við getum borið höfuðið hátt og þóst vita að við höfum unnið okkar vinnu vel. En hvaða mál vill ríkisstjórnin að klárist? Það er alveg út í hött sem hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) talaði um hér í gær, eins og við ættum eftir að sitja hérna í margar vikur. Þetta er bara grín. Ég segi eins og ráðherrann segir oft: Það er bara galið.