145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir áskoranir sem hér hafa komið fram að hæstv. forseti taki núna málin í sínar hendur. Eftir að hafa verið hér á þingi í þrjú ár finnst mér mín upplifun vera sú að Alþingi sé ekki sjálfstætt fyrir fimm aura. Ef vel ætti að vera ættum við að kjósa framkvæmdarvaldið sér og Alþingi sér, vegna þess að það er ríkisstjórnin sem fer með dagskrárvaldið á þinginu. Hæstv. forseti er forsetinn okkar allra. Vinnubrögðin verða ekkert betri ef forseti setur ekki niður fótinn og segir: Hingað og ekki lengra. Það er ég sem stýri hér. Ný mál koma ekki á dagskrá. Þetta eru málin sem við ætlum að klára.

Ég skil ekki hvað ríkisstjórnin er í rauninni að abbast upp á Alþingi. Við eigum að klára þetta. Ég meina það raunverulega þegar ég segi að við ættum að kjósa framkvæmdarvaldið sér og Alþingi sér, vegna þess að það er ekkert til sem heitir þrískipting valdsins þegar þetta er svona.