145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um átök og ósætti um mál. Eins og þetta blasir við mér eru þau átök og það ósætti á millum stjórnarflokkanna og jafnvel innan þeirra. Stór mál eins og samgönguáætlun sem hefur verið lengi í vinnslu vegna þess að menn innan stjórnarflokkanna komu sér ekki saman um hvernig ætti að afgreiða hana. Við erum með mál í umhverfis- og samgöngunefnd um tekjustofna sveitarfélaga sem kom inn í nóvember í fyrra. Það er ekki hægt að afgreiða það vegna þess að menn innan ríkisstjórnarflokkanna koma sér ekki saman um hvernig á að afgreiða það. Við erum með stór mál í efnahags- og viðskiptanefnd sem ekki er hægt að afgreiða vegna þess að fólk innan stjórnarflokkanna er ósammála um hvernig eigi að afgreiða þau.

Svona gæti ég lengi áfram talið. Það stendur ekki á stjórnarandstöðunni. Ætlum við virkilega að eyða þessari viku í að bíða eftir að Framsóknarflokkurinn leysi átökin sem þar geisa innan húss? Það gerist (Forseti hringir.) ekkert í þinginu vegna þess að menn eru ekki tilbúnir til að taka af skarið vegna þess að þeir eru í formannskjöri innan Framsóknarflokksins og átökunum þar. (Forseti hringir.) Hér mun ekkert gerast. Við erum bara í einhverri biðstöðu. (Forseti hringir.) Tökum núna valdið til okkar, virðulegi forseti, þingmennirnir sem hér erum og látum ekki átökin í Framsóknarflokknum stýra þessu þingi.