145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

einkarekstur í heilsugæslunni.

[11:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hafi ég ekki talað nógu skýrt áðan er það stefna Framsóknarflokksins að tryggja heilsugæslu fyrir alla. Ef við þurfum að gera það með fjölbreyttu formi eins og við höfum verið að gera um langt skeið og flestir ef ekki allir flokkar hafa tekið þátt í því og lagt blessun sína yfir það, ef við höldum áfram á þeirri braut að hluta hlýtur það að vera rétt leið því að þá tryggjum við heilsugæslu og heimilislækningar fyrir alla. Það er nú einfaldlega þannig að þó svo vel geti verið að læknar fari inn á þessar nýju heilsugæslustöðvar í Reykjavík þá losna einmitt störf fyrir aðra. Ég veit til þess að ungt fólk er að koma heim frá námi erlendis og fer í námsstöður sem við höfum verið að auka á liðnum árum, hringinn í kringum landið á nýjum heilsugæslustöðvum sem eru reknar af ríkinu, sem er mjög gott. En það er þetta fjölbreytta form sem tryggir að við fáum starfsfólk til að sinna þessu, fara í sérnámið, því það hefur verið akkillesarhæll þessa kerfis að við höfum ekki haft nægilegan fjölda heimilislækna. Núna með þessu, (Forseti hringir.) að hafa fjölbreytt form, virðist okkur ganga mun betur að tryggja það. Ég held að það sé góð leið.