145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

niðurgreitt innanlandsflug.

[11:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa mjög svo áhugaverðu fyrirspurn. Við höfum á kjörtímabilinu verið að skoða þætti í samgönguáætlun til fjögurra ára sem á eftir að fara í síðari umræðu og samþykkt. Þar er verið m.a. að setja ákveðna fjármuni til að skoða niðurgreiðslu á flugi innan lands. Umræðan hér innan lands hefur í nokkuð langan tíma verið á þann veg að vegna samkeppnismála eða einhverra EES-reglna sé þetta ekki hægt. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé hægt að finna leiðir og bent á, alveg eins og hv. þingmaður bendir hér á Skotland sem var eða er í Evrópusambandinu, Skotar eru ekki komnir út enn þá þótt þeir séu hugsanlega á leiðinni út vegna Brexit, þeir hafa verið með svona reglur, að við höfum dæmi um reglur um stækkun atvinnusvæða, til að mynda innan Austurlands eða kringum Eyjafjarðarsvæðið eða suðurfirði Vestfjarða eða stórhöfuðborgarsvæðið milli Hvítár og Hvítár. Það væri eðlilegt að fara inn með einhverja skattafslætti til fólks sem getur fengið þá vegna ferða til og frá heimilis og reyna að tengja það við almenningssamgöngur. Ef almenningssamgöngur eru fyrir hendi og fólk getur nýtt sér þær þurfum við ekki að fara þessa leið. Það er sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu víðast hvar.

Við vorum með almenningssamgöngur á Suðurlandi og þar hefur svo sem mikil fjölgun ferðamanna hjálpað til, en það hefur gengið mjög vel. Við reyndum að setja upp sambærilegt fyrirkomulag á Suðurnesjunum. Þá gerðist það furðulega — og ég hef stundum haft áhyggjur af því að við í stjórnsýslunni túlkum reglurnar þannig að við séum kaþólskari en páfinn, svo ég noti nú það hugtak — að þá greip Samkeppniseftirlitið inn í og sagði að þetta væri brot á samkeppnislögum. Það virðist í mínum huga hafa verið litið fram hjá hagsmunum almennings en þar var verið að bjóða upp á almenningssamgöngur frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins sem gætu hugsanlega skilað einhverjum tekjum sem gætu nýst til að niðurgreiða almenningssamgöngur þar sem væri færra fólk, lengra upp á Vesturlandið, jafnvel til Norðurlands eða á Suðurlandið og síðan Austurland.

Mér finnst rétt og vil bara segja það til að svara hv. þingmanni að mér finnst áhugavert að skoða (Forseti hringir.) alla þessa þætti. Ég vil líka skoða þetta varðandi Grímsey, (Forseti hringir.) að greiða sérstaklega niður flugfar fyrir íbúa Grímseyjar.