145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

niðurgreitt innanlandsflug.

[11:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Víða um land eru mjög áhugaverð búsetutækifæri fyrir fólk og sem betur fer eru núna á síðustu árum í vaxandi mæli fjölbreytt störf í boði, fjarskiptakerfið er að batna með ljósleiðaravæðingu alls landsins, við höfum tekið stór skref á þessu kjörtímabili þótt ekki sé búið að fullljúka öllum verkefnunum. Ég er sammála að það eigi að skoða þetta gaumgæfilega með flugið. Það má velta fyrir sér og hefur verið skoðað núna í sambandi við byggðaáætlunina eða flutningsjöfnunina að niðurgreiða flugvélabensín með sama hætti og annað eldsneyti. Það mundi lækka flugfargjöld umtalsvert. Þetta er auðvitað Austurlandið og Höfn í Hornafirði. Við sjáum sambærilegan hlut er varðar Vestmannaeyjar og var aðeins minnst á í byggðaáætlun sem í gildi er enn, að þegar ekki er siglt til Landeyjahafnar heldur Þorlákshafnar fjórfaldast allt í einu eða fimmfaldast kostnaður fjögurra manna fjölskyldu. Þetta eru allt þættir sem við eigum að skoða. Núna erum við í færum til þess. Við gátum það kannski ekki fyrir nokkrum árum. En þetta eigum við að skoða heildstætt, alla þessa þætti. Ég held að þarna séu mjög áhugaverðir hlutir sem við getum aukið og tryggt og þar með bætt möguleika fólks á að búa hvar sem er, þar sem það kýs að búa, starfa við það sem í boði er án þess að kostnaður eða einhverjar óeðlilegar fjarlægðarhindranir dragi úr möguleikum á slíkri búsetu.