145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

tilfærsla málaflokka milli ráðuneyta.

[11:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gerðist margt skringilegt á þessu kjörtímabili eins og til dæmis þegar ákveðið var að færa yfir í forsætisráðuneytið málaflokka og stofnanir sem eiga heima í öðru ráðuneyti. Mig langaði því til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sæi tilefni til þess að færa aftur og hreinsa til þau verk sem fyrrverandi forsætisráðherra tók sér fyrir hendur út af sérstökum persónulegum áhuga ráðherrans á málaflokkum er lúta að þjóðmenningu. Ég bendi á að undir forsætisráðuneyti voru flutt verkefni og stofnanir er lúta að þjóðmenningu. Það má finna í 3. lið 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslandi:

„a. Varðveislu menningararfsins, þ.m.t. jarðfastra minja og gripa.

b. Vernd þjóðarverðmæta og flutning menningarminja úr landi.

c. Skil menningarverðmæta til annarra landa.

d. Vernd húsa og mannvirkja.

e. Vernd sögulegrar og menningartengdrar byggðar og umhverfis- og skipulagsmál því tengd.

f. Minjastofnun Íslands.

g. Þjóðminjasafn Íslands.“

Það er ljóst að þessar breytingar á verksviði forsætisráðuneytisins eru umdeildar og sú fagþekking sem finnst í menntamálaráðuneytinu er betur til þess fallin að halda vel utan um þessa málaflokka. Því langaði mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það standi til að taka til og færa þessar mikilvægu stofnanir á réttan stað.