145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

tilfærsla málaflokka milli ráðuneyta.

[11:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég býst nú við að hv. þingmaður sé ekki að leggja það til, nú í lok þessa kjörtímabils, að við förum í verulega uppstokkun á ráðuneytum. Ég held að þær stofnanir sem hv. þingmaður nefndi hafi þrifist mjög vel í forsætisráðuneytinu á kjörtímabilinu og það starf hafi eflst á þeim tíma. Það eru margir sammála um það þó að auðvitað sýnist sitt hverjum.

Ef við horfum hins vegar heildstætt á þetta, hvað á að vera á hverjum stað, þá hlýtur það að vera samkomulagsatriði ríkisstjórnar á hverjum tíma. Við þekkjum það frá öðrum löndum, til að mynda Norðurlöndunum sem við berum okkur oft saman við. Í Danmörku er verið að færa til ákveðnar einingar innan ráðuneyta. Ráðuneytin eru mjög stór, það geta verið fleiri en einn ráðherra, jafnvel tveir eða þrír innan þeirra ráðuneyta og þar færa menn svolítið til þessar starfseiningar eftir því hvað hentar. Það getur verið vegna samstarfs flokka. Það getur verið vegna sérþekkingar einstakra ráðherra eða áhuga.

Ég held að það sé ekki slæmt. Ég held að það sé eitt af því sem ekki þurfi að skemma fyrir stöðugleika eða fagmennsku eða eitthvað slíkt. Ef við mundum til að mynda ræða forsætisráðuneytið þá held ég að á margan hátt væri mjög eðlilegt, af því að við vorum að ræða byggðamál áðan, að þau séu sá málaflokkur sem kannski ætti að heyra þar undir; eiga að fara inn í öll ráðuneyti. Það sama mætti svo sem segja um jafnréttismál og aðra slíka málaflokka sem eru þverfaglegir, slík mál heyra ekki undir eitt ráðuneyti sérstaklega og ættu að vera unnin á mörgum sviðum. Auðvitað eru efnahagsmál, sem oft hafa verið undir forsætisráðuneytinu, líka mál sem þar ættu vel heima. En fyrst og fremst er það samkomulagsatriði ríkisstjórnar á hverju kjörtímabili, lykilatriði að þannig sé búið um hnútana að fram fari öflugt faglegt starf og þekking sé til staðar innan ráðuneytisins. Það getur þýtt að það þurfi að flytja starfsfólk til innan Stjórnarráðsins (Forseti hringir.) og mér finnst það minna mál en hitt að ekki sé tryggt að menn nái fram einhverjum pólitískum stefnumálum ríkisstjórnar á hverjum tíma.