145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér stórt mál sem hæstv. ráðherra mælti fyrir á fimmtudaginn og lýtur að breytingum á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta er töluvert umfangsmikið mál sem á sér auðvitað töluverðan aðdraganda, eins og hæstv. ráðherra fór yfir í framsögu sinni. Upphaf þessa máls er raunar rakið til stöðugleikasáttmálans svokallaða frá árinu 2009 í kjölfar hrunsins þar sem þáverandi ríkisstjórn settist niður með aðilum vinnumarkaðarins og setti niður tiltekin markmið. Eitt þeirra markmiða var samræming og jöfnun réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Unnar voru tillögur sem miðuðu að því að aldurstengd ávinnsla réttinda yrði meginreglan til framtíðar í lífeyriskerfinu og lífeyrisaldur yrði samræmdur. Í tillögum hópsins var lagt til að lífeyrisréttindi yrðu 76% af meðalævitekjum og miðað við 40 ára inngreiðslu iðgjalda.

Síðan hefur talsvert verið unnið að þessum málum og farið fram viðræður milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og síðan samtaka opinberra starfsmanna, þ.e. BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands, og að sjálfsögðu einnig á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Þetta mál hefur verið sett í samhengi við nauðsyn þess að samræma vinnumarkaðinn og vitnað hefur verið til svokallaðs SALEK-samkomulags í þeim efnum, sem menn hafa ekki verið á einu máli um, hvorki á hinum opinbera vinnumarkaði né á hinum almenna. Ætlunin er að fækka þeim viðsemjendum sem koma að því að semja um kaup og kjör. Það liggur líka fyrir að margir telja að þá sé verið að hafa af þeim þann stjórnarskrárvarða rétt að geta samið um kaup sín og kjör. Þeir sem hafa hins vegar talað fyrir heildarsamtök opinberra starfsmanna í þessu máli hafa lagt áherslu á að þetta sé sjálfstætt skref óháð SALEK-samkomulaginu, enda er það svo að BHM og KÍ hafa ekki verið aðilar að því samkomulagi, hvað svo sem verða kann í þeim efnum.

Þetta er auðvitað eitthvað sem hefur verið rætt, fulltrúar allra flokka hafa fengið kynningu á fyrirætlunum um að samræma vinnumarkaðinn eða koma á auknu samræmi. Það má segja um það að þar eru auðvitað bæði kostir og gallar. Við höfum verið að horfa til þess að töluvert mikil orka hefur farið í að ná samningum við tiltölulega litla hópa sem síðan hafa haft áhrif á samninga við aðra hópa og allt hefur þetta valdið, eins og við þekkjum á þessu kjörtímabili, miklum deilum á vinnumarkaði. Við höfum þurft að fylgjast með því á þessu kjörtímabili að núverandi ríkisstjórn hefur ítrekað lagst í lagasetningar á verkföll ólíkra starfsstétta, sem er mjög miður og ekki til marks um að við séum að ná þeim stöðugleika á vinnumarkaði sem við þyrftum að ná. Á móti kemur sá galli sem ég nefndi hér að við erum með stjórnarskrárvarinn rétt fólks til að semja um kaup sitt og kjör. Ég hef fundið það á ferðum mínum um landið að þetta mál brennur á mjög mörgum innan verkalýðshreyfingarinnar. Það eru ekki allir á eitt sáttir um það.

Ég ætla að víkja því til hliðar og ræða aðeins þetta mál sem er grundvallarbreyting. Aðdraganda þessara viðræðna má rekja til 2009 en viðræður hafa staðið allt frá 2011. Þetta samkomulag var undirritað fyrir viku. Á svipuðum tíma var okkur, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, kynnt efni samkomulagsins. Það verður að segjast eins og er, og ég ætla að segja það strax í upphafi, að það er í raun og veru afskaplega vond staða að vera stillt upp frammi fyrir þeim valkosti að undir liggi kerfisbreyting á risastóru kerfi sem varðar lífeyriskjör komandi kynslóða og stöðu íslenska ríkisins gagnvart skuldbindingum sínum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, sem og skuldbindingar sveitarfélaganna. Við erum að tala um skuldbindingar upp á meira en 100 milljarða. Um er að ræða kerfisbreytingar sem þarf að skoða mjög vandlega hvernig muni birtast og reynast ólíkum hópum. Það er því vont að vera stillt upp á þann veg að núna, þegar við erum stödd á þeim stað í þingstörfum að þrír þingfundadagar eru eftir af samþykktri starfsáætlun, erum við enn í 1. umr. um þetta stóra mál.

Ég ætla því að segja strax að ég tel affarasælla að við værum ekki að hlaupa hér í hlandspreng til að ljúka þessu að óskoðuðu máli, því að við erum að tala um kerfisbreytingu sem á að taka gildi 1. janúar 2017 en er þá hugsuð til allrar framtíðar. Ég held að engum hv. þingmanni finnist þægilegt að eiga að taka afstöðu til slíks máls. Ég átta mig á því að heildarsamtök þeirra sem standa að málinu eru fylgjandi því. Við höfum líka fengið talsvert af bréfum og athugasemdum frá þeim sem eru ósáttir. Ég mun koma að því aðeins síðar í ræðu minni. En það er engum hv. þingmanni sem finnst þægilegt að eiga að taka afstöðu til slíkrar kerfisbreytingar á örfáum dögum. Ég hefði því talið affarasælast, herra forseti, að það yrði niðurstaða okkar að að lokinni 1. umr. yrði málið sent til nefndar. Ég tel reyndar að senda eigi málið til hv. efnahags- og viðskiptanefndar en ekki fjárlaganefndar, því að samkvæmt þingsköpum fer fjárlaganefnd með skuldbindingar lífeyrissjóðanna en efnahags- og viðskiptanefnd fer með málefni lífeyrissjóðanna. Ég lít á þetta sem kerfisbreytingu, skuldbindingarnar birtast síðan í fjáraukalögunum sem eiga heima í fjárlaganefnd. Ég vil nefna þetta vegna þess að hæstv. ráðherra lagði til að málinu yrði vísað til fjárlaganefndar. Ég hefði talið eðlilegra að það færi til efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég geri það að tillögu minni að við komum okkur saman um að skipa milliþinganefnd sem fari yfir þetta mál þegar þessu þingi er lokið. Hlutverk hennar yrði að fara yfir málið þar til nýtt þing kæmi saman og þá yrði það lagt fram til afgreiðslu, enda gildistíminn ekki fyrr en 1. janúar 2017. Ég veit að þetta er ekki algengt fyrirkomulag en ég var að reyna að kynna mér þetta á hlaupum í morgun. Þegar breytingar voru gerðar á skattamálum, þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp, þótti það svo umfangsmikil kerfisbreyting að skipuð var milliþinganefnd af þáverandi fjármálaráðherra, Þorsteini Pálssyni. Ég held að það væri leið til að reyna að ná þessu máli í eðlilegan farveg þannig að við fengjum tíma til að skoða það, svo að okkur væri ekki stillt upp við vegg til þess að taka afstöðu til breytinga sem við höfum í raun og veru ekki tíma til að kynna okkur. Ég mun gera þetta að formlegri tillögu minni og vona að við getum náð samkomulagi um það.

Það er verið að leggja til verulegar breytingar, eins og ég fór yfir áðan. Það er verið að leggja til grundvallarbreytingu á réttindaávinnslunni þannig að hún verði aldurstengd. Það mun hafa ólík áhrif á ólíka hópa opinberra starfsmanna. Það kann að vera að nægur hagur sé í því að ná slíku samræmi fram til þess að við séum reiðubúin að taka afstöðu með því þó að það þýði neikvæðar breytingar fyrir einhverja aðra. En þetta er grundvallaratriði sem við munum þurfa að skoða nákvæmlega. Hitt er það sem ekki er hluti af frumvarpinu sjálfu en er hluti af því samkomulagi sem er undirstaða frumvarpsins og það er að samhliða þessum breytingum, þar sem í raun er verið að færa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna yfir til þess sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, sem eru þá heldur verri lífeyriskjör en gerast á hinum almenna markaði, þá liggur fyrir í samkomulaginu að hækka eigi laun á hinum opinbera vinnumarkaði á sex til tíu árum og það verði gert með tilteknum leiðréttingum á milli stétta. Satt að segja skil ég mætavel þá sem gagnrýna það að við séum hér stödd að ræða tiltekna óafturkræfa kerfisbreytingu en því sem koma á á móti þeirri kerfisbreytingu, sem er sem sagt launahækkunin sem boðuð er, þannig að opinberi markaðurinn sé á pari við hinn almenna markað, er frestað fram í tímann. Það er ósköp eðlilegt, fyrir okkur hér á þingi, að fá þá nákvæma sýn á það hvernig á að ná þessari leiðréttingu fram. Ef menn eru að tala um að almenni vinnumarkaðurinn eigi að setja viðmiðin fyrir launahækkanir í samfélaginu þá hlýtur forsenda þess, til að það gangi eftir, að vera sú að búið sé að leiðrétta þennan launamun á milli opinbera markaðarins og almenna markaðarins. Við fáum ekkert að vita annað en að þetta sé fyrirhugað á sex til tíu árum. Þarna hefðum við þurft að hafa haldbetri gögn, kannski eru þau til, ég veit það ekki, það á eftir að koma fram í meðförum nefndarinnar, um það hvernig á að ná þessu fram. Er búið að greina hinar ólíkur stéttir? Er búið að greina þetta út frá kynbundnum launamun, hvernig hann spilar inn í þessa leiðréttingu? Er búið að fara yfir hvernig við metum sambærilegar stéttir milli ólíkra kerfa? Þetta eru allt stórar spurningar sem við þurfum tíma til að skoða.

Ég vil nefna það líka að við getum ekki lokað augunum fyrir því, við þingmenn sem hér störfum, að við höfum þegar fengið gagnrýni. Þó að meiri hluti verkalýðshreyfingarinnar, eða launþegasamtakanna, sé á bak við þetta þá höfum við fengið sent talsvert af áskorunum. Ég nefni talsvert af áskorunum frá kennarafélögum í ólíkum grunnskólum sem hafa borist okkur. Félagsmenn sem samþykkja þær áskoranir telja að viðamiklar breytingar hafi verið samþykktar án þess að samþykkis félagsmanna Kennarasambands Íslands hafi verið leitað. Þar er sérstaklega lýst yfir efasemdum um raunverulegan vilja til launajöfnunar og bent á að kjarasamningar við grunnskólakennara hafa nú verið felldir í tvígang og þar hafi engin merki sést um þann yfirlýsta vilja sem kemur fram í þessu samkomulagi. Þetta er að berast okkur frá grunnskólum um land allt. Við höfum líka fengið athugasemdir frá þeim fjórum félögum af 26 félögum BSRB sem eru ósátt við þetta mál. Við höfum fengið ýmsar athugasemdir þar, t.d. er talað um það hvernig þetta samkomulag muni koma út fyrir þær stéttir sem vinna á vöktum. Síðan höfum við fengið athugasemd frá Sjúkraliðafélaginu um þann þátt sem vísað er til framtíðar, þ.e. launajöfnunina. Þau gagnrýna að ekki sé vitnað til þeirra talna sem Hagstofan hefur lagt fram, sem sýna að launin hjá hinu opinbera séu um 16% lægri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði, heldur eigi í raun að fara að semja um hver launamunurinn sé. Vitnað er til þess sem segir í samkomulaginu að aðilar hafi ekki talið sig geta byggt frekar vinnu á launasamanburði á þessum grunni og byggja þyrfti á betri forsendum um hver hann sé. Þetta vekur tortryggni hjá forustumönnum sjúkraliða.

Ég vil bera virðingu fyrir því sem meiri hluti verkalýðshreyfingarinnar, launþegasamtakanna, hefur unnið að. En ég vil líka segja að ef við þingmenn hlustum ekki á þá sem koma með varnaðarorð og benda á það sem betur má fara í þessu samkomulagi og í þessu frumvarpi þá sinnu við ekki okkar störfum.

Herra forseti. Því miður eru mínar 15 mínútur að verða búnar. Ég er vart byrjuð að ræða efnisatriði frumvarpsins, ég er enn bara í aðdraganda málsins, sem er miður. Það sem ég hef þegar bent á sýnir okkur þó að við eigum að finna farveg fyrir þetta mál. Ég mun gera það að tillögu minni að milliþinganefnd verði sett á fót sem taki þessar breytingar til skoðunar og starfi að þeim á milli þinga við þessar óvenjulegu aðstæður þar sem við erum með haustkosningar, þannig að hægt sé að taka málið til efnislegrar afgreiðslu. (Forseti hringir.) Síðan vil ég gera athugasemd, hæstv. forseti. Ég átti von á hæstv. fjármálaráðherra í salinn en hann er ekki kominn. Ég legg til að þessari umræðu verði frestað þar til hann er mættur til að hlýða á þá gagnrýni sem sett er fram á frumvarp hans.