145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig stendur á því að við erum alltaf að taka hér inn mál sem eru algerlega samþætt hvort í sínu lagi. Það er ljóst með almannatryggingarnar að það er kerfisbreyting. Á sama tíma er það viðurkennt að almannatryggingakerfið er svo flókið að alltaf þegar gerðar eru breytingar á því þá falla einhverjir á milli skips og bryggju. Alltaf. Af einhverjum ástæðum tekur það oft óratíma að fá leiðréttingu fyrir þá sem hafa fallið fyrir björg, sem er óásættanlegt, því að þetta eru mjög oft viðkvæmustu hóparnir sem eiga ekki að þurfa að búa við það endalaust að verið sé að hræra í réttindum þeirra án þess að þeir fái nokkra einustu aðkomu að því eða að reynt sé að finna lausnir.

Ég hefði viljað að við tækjum bæði almannatryggingamálið og lífeyrissjóðamálið í milliþinganefnd og að þau mál væru skoðuð í samhengi. Það er til dæmis mjög skringilegt að í almannatryggingafrumvarpinu er talað um að eftirlaunaaldurinn byrji þegar maður er sjötugur, en í þessu frumvarpi fjármálaráðherra er það 67 ára. Ekki er tekið tillit til þess að opinberir starfsmenn hafa oft getað byrjað að taka eftirlaun þegar þeir eru á milli sextugs og sjötugs og miðgildið er þá væntanlega 65, eins og talað er um. Ef þú tekur þau fyrr eru tekjurnar væntanlega lægri, en mér finnst ótrúlegt að það sé viðtekin venja að ólíkir málaflokkar séu ekki teknir fyrir með almennilegri yfirsýn.