145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Enn hefur ekkert gerst hér, ekki hefur dregið til tíðinda varðandi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og uppi er sú einkennilega staða að í nefndunum leggjum við hart að okkur til að vinna í mikilvægum málum, en við vitum þó ekki hvaða mál við eigum að setja í forgang. Þingmenn sem tóku mark á dagskrá þingsins eru búnir að skuldbinda sig í ýmis verkefni tengd kosningum. Til dæmis eru hér stór samtök sem óskað hafa eftir þingmönnum á fundi vegna kosninga. Nú erum við í ákveðnum vanda því að við þingmenn viljum rækja skyldur okkar í þinginu, það er okkar fremsta skylda. En um leið er svolítið skrýtið að neita að taka þátt í lýðræðislegum umræðum sem tengjast kosningum. Ég fer fram á að við verðum tekin úr þessari klemmu og að komið verði skipulagi á störf þingsins.