145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skil það vel að sá forseti sem sat á forsetastóli fyrr í dag sé ekki ánægður með það þegar við þingmenn ýjum að því að okkur finnist hann á stundum ekki vera forseti allra þingmanna heldur standa með meiri hlutanum. Ég vil samt ekki segja það. Mér finnst forseti þingsins reyna hvað hann getur til að koma skikki á þennan stað hér og það verk sem við erum að vinna.

Málið er að forseti ræður ekkert við ríkisstjórnina og hún ræður ekkert við verkefni sitt. Hún ræður ekki við það verkefni að ljúka hér þingstörfum, að gera upp við sig hvaða mál það eru sem hún vill ná í gegn. Það er undarlegt að ríkisstjórnin láti sér detta í hug að þingið geti á viku (Forseti hringir.) afgreitt algjöra kerfisbreytingu á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.