145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Honum varð tíðrætt um að hann styddi þetta mál, eða svo virtist vera í það minnsta, það var sá skilningur sem ég fékk úr ræðunni, og fór yfir hversu vel þetta mál væri unnið, ef ég skildi það rétt. Við að skoða málið verð ég að segja að eitt er við það sem mér finnst heldur skrýtið, og mér þætti vænt um að fá álit hv. þingmanns á því, þ.e. hvernig breytingunum er fyrir komið. Það er auðvitað alltaf þannig í frumvörpum eða yfirleitt í svona frumvörpum að ýmsu er bætt við og eitthvað er tekið út og stundum eru orðalagsbreytingar o.s.frv. En í þessu frumvarpi er heill kafli tekinn út, nefnilega II. kafli, samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Þegar ég sló þessu upp í samanburðarskjal, sem getur verið hentugt til að skoða mun á lögum fyrir og eftir breytingu, þá detta þarna út fjórar og hálf blaðsíða sem mér finnst heldur mikið á einu bretti, en stundum kannski akkúrat það sem þarf, að rífa bara úr svo sem kafla eða tvo úr löggjöf, maður skilur það svo sem. En síðan eru heil ósköp sett í bráðabirgðaákvæði, ég tel þar einar tvær blaðsíður eða svo. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé í raun og veru einkenni lagasetningar sem er vel útpæld til framtíðar. Eða er það kannski ekki markmið frumvarpsins að sjá fyrir öllum vandræðum til framtíðar? Er þetta einhvers konar steinn á leiðinni í einhverja vegferð, eitthvað því um líkt? Ég velti því fyrir mér vegna þess að þegar við vöndum lagasetningu þá viljum við væntanlega ekki að löggjöfin eða réttindi fólks byggi mikið á bráðabirgðaákvæðum, eða ég hefði alla vega haldið að svo væri ekki.