145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tel líklegt að við sem erum virk í pólitík akkúrat á þessari stundu, hvort sem það er hér á vettvangi Alþingis eða annars staðar, í atvinnulífinu, lífeyrissjóðum eða annars staðar, munum finna hina einu réttu leið eða lausn sem duga mun til allrar framtíðar. Þó að við þurfum auðvitað að vera stórhuga og hugsa fram í tímann hlýtur þetta að vera mál af því tagi sem alltaf er einhver umræða um og tekur auðvitað mið af breytingum í samfélaginu, þar með talið aldurssamsetningu þjóðar og öðru slíku. Mér fannst skemmtilegt hjá hv. þingmanni að koma með aðrar nálganir og aðra sýn á þetta mál, í það minnsta fyrir mig.

Aftur að þessum fáu þingdögum sem eftir eru og þessu stóra máli. Líkt og hv. þingmaður rakti svo ágætlega í ræðu sinni og í andsvari hefur þetta mál verið í vinnslu um allnokkurt skeið. Það er alveg rétt að samkomulag náðist við verkalýðshreyfinguna um málið. En nú ber svo við að okkur þingmönnum eru að berast póstar og bréf frá ýmsum félögum í grasrót þessara sömu verkalýðshreyfingar sem eru með spurningar á lofti og lýsa yfir efasemdum. Er það ekki (Forseti hringir.) líka eitthvað sem við þurfum að taka mið af? Það er auðvitað það sem yfirleitt er gert í starfi (Forseti hringir.) þingnefndar þegar verið er að fjalla um mál. Aftur leiðir það okkur ekki að því að hér þurfum við að vanda til verka í vinnu okkar.