145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram um að við hættum þessum umræðum þangað til ríkisstjórnin hefur komið sér saman um hvaða mál það eru sem hún vill afgreiða. Þá á ég náttúrlega ekki við það sem ég kalla — það var næstum því dónaskapur sem hæstv. félagsmálaráðherra sýndi þinginu í dag þegar hún kallaði fram í: Já, bara að klára öll mál. Það verður náttúrlega að bera einhverja virðingu fyrir fólki og gæta að því hvernig maður kemur fram. Jafnvel þó að maður sé hæstv. ráðherra á maður að sýna óbreyttum þingmönnum kurteisi en ekki hroka af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Ég vil endilega gera það að tillögu minni að reynt verði að ná í (Forseti hringir.) forustumenn ríkisstjórnarinnar og þeir settir saman (Forseti hringir.) við borð og athugað hvort ekki sé hægt að fá upp úr þeim hvernig þeir hafa hugsað sér að reyna að loka þessu þingi.