145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það má segja að maður eigi kannski að taka á þessari fáránlegu stöðu með skopskyninu, að það sé í raun þannig að það sé mánuður til kosninga og að ríkisstjórn Íslands sé í slíkum henglum að hún treysti sér ekki til að forgangsraða verkefnum sem hún hefur sjálf lagt fram. Og þeir sem helst taki ábyrgð á þingstörfunum séu minni hlutinn, sem getur auðvitað með engu móti borið virðingu fyrir ríkisstjórn sem er búin að klúðra öllum sínum málum, auk þess að komið hefur í ljós að hún er með allt niður um sig þegar forustufólk hennar faldi peningana sína í skattaskjólum.

Þetta er ekki brandari, frú forseti. Þetta er sú staða sem uppi er á Alþingi Íslendinga. Ég fer fram á að frú forseti taki hér (Forseti hringir.) undir tillögur okkar þingmanna sem erum þó hér í salnum, og fari (Forseti hringir.) yfir það hvaða mál verður lífsnauðsynlega að klára á næstu dögum.