145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:28]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Þetta er náttúrlega bara spurning um hvort við séum komin í eitthvert höfrungahlaup þegar kemur að launum. Þetta frumvarp hér finnst mér ekki koma með nógu skýra sviðsmynd, eins og hv. þingmaður talaði um áðan. Hversu hátt hlutfall af launum er í raun verið að setja í lífeyrissjóðakerfið með þessum breytingum? Er reiknað með að fólk fari að safna upp séreignarlífeyrissparnaði? Það virðist vera samkvæmt þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur almennt, en ég þarf að draga mínar ályktanir um það, sem mér þykir mjög erfitt. Ef lífeyrissjóðirnir eru 9% og síðan er 9% mótframlag frá vinnuveitanda og svo séreignarlífeyrissparnaður erum við að tala um alveg gífurlega hátt hlutfall af laununum, yfir 20%, ef maður horfir á það prósentulega séð. Auðvitað dregst ekki allt af launum heldur er líka mótframlag frá vinnuveitanda, sem er í þessu tilfelli ríkið. Ég velti því fyrir mér hver raunverulegu áhrifin verða. Mér finnst frumvarpið ekki alveg svara því nægilega vel.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði, það er forsendan fyrir því að við náum að fara í gegnum þetta frumvarp og koma því í einhverja milliþinganefnd. Ég tek innilega undir að það er sennilega farsælasta lausnin, ekki einfaldlega af því að frumvarpið sé alslæmt, ekki út af því að við viljum ekki vinna að þessu máli, heldur einmitt af því að við viljum það, virðulegi forseti. Ég held að það sé líka nokkuð sem taka þarf til greina. Við viljum vinna vinnu okkar vel.