145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að varpa ljósi á ósættið sem er til staðar. Ég hef eins og aðrir þingmenn fengið þó nokkuð af póstum upp á síðkastið þar sem óánægju er lýst með það að samið hafi verið án umboðs. Ég verð að segja eins og er að þegar ég byrjaði að fá þessa pósta þá var ég ekki viss um að þeir vörðuðu þetta mál, mér fannst þetta allt frekar óljóst, ég þekki málaflokkinn illa. Með hliðsjón af því, liggur ekki í augum uppi að engin forsenda er til þess að afgreiða þetta mál hér og nú? Ef ekki liggur fyrir sátt sem menn byggja málsmeðferðina á, ef þeir ætla að halda áfram með þetta á þeim forsendum að þetta sé svo mikilvægt, að svo vel hafi verið unnið að þessu, sem er sjálfsagt tilfellið, ef svona andúð kemur upp á fyrri stigum málsins, er þá ekki augljóst að það þarf að bíða með málið? Ég spyr að því vegna þess að mér finnst það rétt málsmeðferð ef það er mögulegt.

Mig langar líka að spyrja: Er þetta mál sem má bíða þar til fundið er út úr hinum hlutunum, þ.e. kjarabótunum sem hv. þingmaður talaði um? Má þetta mál bíða fram yfir kosningar og vera tekið fyrir að nýju á nýju kjörtímabili? Ég greip það rétt áðan að fólk var að tala um milliþinganefnd, eitthvað sem ég vona að verði ekki staðlað úrræði við lok kjörtímabils. En auðvitað kemur það til greina ef það er heppilegri lausn. En þetta eru gríðarlegar upphæðir og mér finnst einhvern veginn að þegar verið er að tala um slíkar upphæðir í þessum málaflokki þá hljóti það að byggjast á sátt. Ef hún er ekki til staðar þarf þá ekki að bíða? Skaðar það málið eitthvað að bíða með það?