145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er ágætt að taka almannatryggingafrumvarpið af því að við höfum aðeins verið að móast við með það. Þrátt fyrir að það hafi verið í ferli mjög lengi eru þar agnúar sem sumir er ósáttir við og reynt hefur verið að eiga samtal um það mál. Þegar við erum að gera kerfisbreytingar heilt yfir hef ég sagt — ég hef sagt það úr ræðustól þingsins og get sagt það hvar sem er — að okkur hafi farnast vel þegar við settum niður þverpólitíska nefnd varðandi þingmannanefnd og varðandi útlendingalögin. Það hefði verið farsælt að gera það líka í þessu máli, að einhverju leyti að minnsta kosti, að fólk væri sæmilega vel upplýst um hvað væri að gerast, en ekki síst þeir hópar sem hér eru undir.

Það er verið að tala um að samningaviðræður forustu BSRB, BHM og KHÍ við ríkið hafi að mestu farið fram fyrir luktum dyrum. Mér þykir miður ef svo er, það eru margir sem telja það vera þannig. Ég ætla að fá að lesa það, með leyfi forseta, sem Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands og þar áður formaður SFR, sagði í blaði árið 2012, nánar tiltekið í Sjúkraliðanum:

„Vegna fenginnar reynslu er ástæða til að óttast. […] Ef forystumenn BSRB fara inn í samningaviðræður um breytt lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna geta þeir lent í ógöngum. Maður þekkir það af gamalli reynslu að í löngum og flóknum samningum er hætta á að samningamenn sogist inn í ferli sem þeir komast ekki út úr. Þannig er hægt að komast að niðurstöðu sem viðkomandi samningamaður telur sig skuldbundinn af án þess að hann hafi ætlað sér í upphafi að lenda á þeim stað. Þetta hefur gerst áður varðandi breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, en þá voru það þeir sem stóðu utan við samningaviðræðurnar sem snerust gegn því og tókst að bjarga málinu.“

Ég vona að við (Forseti hringir.) töpum þessu máli ekki, heldur náum góðu samtali við alla þá sem um ræðir.