145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er löngu komið að því að freista þess að ná utan um verkefnið, eins og virðulegur forseti orðaði það fyrr í dag. Verkefnið er mjög einfalt. Það er ekki eins og við séum að koma að viðlíka verkefni í fyrsta skipti. Við gerum þetta iðulega. Þetta er árvisst verkefni. Meira að segja gerum við þetta bæði fyrir jól og svo að vori. Að vísu erum við núna að fara í kosningar á óvenjulegum tíma en forseti, ég er alltaf jafn hissa á því að það þurfi svona svakalegan aðdraganda að því sem augljóst er að þarf að gera, þ.e. setjast niður og setjast yfir hvaða mál eru í forgangi og hver ekki. Ég árétta að að þessu sinni liggur þetta algerlega þannig að þingið sjálft getur tekið utan um verkefnið. Þingið sjálft getur forgangsraðað, getur höggvið á hnútinn og á að gera það. Forseti á að styðja þingið í því. Það er ljóst að ríkisstjórnin er búin. Það er ekkert til hennar að sækja, hvorki í forgangsmálum né annarri leiðsögn. Ég held að það sé málefnalegast (Forseti hringir.) og eðlilegast að við þingmenn sem erum með hugann við þingstörfin setjumst yfir þetta og ákveðum hvað við klárum þá daga sem eftir eru.