145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Samkvæmt yfirliti yfir stöðu þingmála eru 26 mál í nefnd, sex bíða 1. umr., tvö eru framhald af 1. umr. og til 2. umr. er eitt mál, eins og staðan er núna. Ég spyr, og þykir það alveg sjálfsögð spurning: Er ætlunin að þau sex mál sem bíða 1. umr., svo sem skráning og mat fasteigna, siglingalög, loftferðir, vopnalög, stofnun millidómstigs og fjáraukalög, verði kláruð á þessu þingi? Eru þetta mál sem á bara að mæla fyrir til að hafa í þingtíðindum eða er ætlunin að klára að afgreiða þessi frumvörp? Ég spyr: Er þetta virkilega forgangsröð okkar; loftferðir og vopnalög, sem eru EES-reglur? Ætlum við að halda þinginu í gíslingu út af þeim? Því að það þarf að klára öll mál, eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gjammaði hérna úr hliðarsalnum áðan. (Forseti hringir.) Þetta eru töluvert mörg mál og mér finnst þetta vera sjálfsögð spurning sem forseta beri að svara.