145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við, þingmenn í minni hlutanum, höldum áfram að koma hér upp og kveðja okkur hljóðs um fundarstjórn forseta því að tveir dagar eru eftir af starfsáætlun þingsins og það bólar ekkert á ríkisstjórnarforustunni. Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna treysta sér ekki til að setjast niður með minni hlutanum í þinginu og fara yfir forgangsmál sín. Ég held að það geti með engu móti verið af því að þeir hræðist það ágæta fólk sem er í forustu fyrir þingflokka okkar, heldur treysta þeir sér ekki til að koma því til skila til okkar að þeir geti ekki komið sér saman um hvaða mál á að klára hér fyrir kosningar. Við getum ekki haldið áfram svona. Við erum búin að gera það vikum saman en nú er það búið. Nú verða menn að setjast niður og fara (Forseti hringir.) yfir þá alvarlegu stöðu sem uppi er.