145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega stór áfangi sem náðst hefur með sameiginlegri niðurstöðu stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan lífeyrismála í landinu. Niðurstaðan er árangur af víðtæku samráði. Nú er komin samstaða um niðurstöðuna á milli þessara aðila, hún er komin til þingsins, að vísu allt of seint.

Lengi hefur verið rætt um einmitt þetta og þær hindranir sem felast í óbreyttu ástandi, bæði fyrir einstaklinga og ríkissjóð og skuldbindingar opinberra aðila. Það var síðan með stöðugleikasáttmálanum sem gerður var árið 2009 að ríkisstjórn, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að taka í sameiningu á lífeyrismálum og málefni lífeyrissjóðanna til umfjöllunar og fara yfir málin frá grunni og móta framtíðarsýnina. Í kjölfarið var skipaður vinnuhópur sem var sammála um þá framtíðarsýn að samræma og jafna réttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, að kerfið yrði sjálfbært með aldurstengdri ávinnslu réttinda og samræmdum lífeyrisaldri.

Þá tók við útfærsla og sáttargjörð um lausn á vanda opinberu sjóðanna og áhrif á einstaklinga sem áunnið hafa sér réttindi í núverandi kerfi. Niðurstaðan er komin, eins og ég sagði áðan, og samkomulagið undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Þegar svo stóru samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga og stéttarfélaga er landað þar sem miklir hagsmunir eru undir finnst mér nauðsynlegt að málið detti ekki ofan í hefðbundnar skotgrafir stjórnmálanna. Að þessu stóra máli komu fulltrúar launafólks ásamt kjörnum fulltrúum ríkis og sveitarfélaga úr öllum flokkum. Vandinn er hins vegar sá að málið er mjög seint inn komið og fáir dagar til stefnu að vinna það í þingnefnd eða til umræðu í þingsal. Við þurfum að sjálfsögðu að vanda okkur, frú forseti, við afgreiðslu málsins á Alþingi. Við þurfum að kynna okkur forsendur og meta afleiðingar vel en um leið sýna því samkomulagi virðingu sem náðst hefur í flóknu máli, sem varðar hag og kjör fólksins í landinu.

Þó að ég sé mjög jákvæð gagnvart þessu máli og heildarhugsuninni og sjái vel kostina er stóra vandamálið akkúrat núna að frumvarpið kemur svo seint inn. Við erum hér á þriðjudegi að ræða það í 1. umr. Á fimmtudaginn á að ljúka þinginu. Það er ekki hægt að ljúka svo stóru máli á svo stuttum tíma. Það er alveg nauðsynlegt að fara yfir það hvernig hægt er að ljúka þessu mikilvæga máli og lenda því þannig að þingmenn geti verið öruggir um að þeir hafi farið vel yfir allar hliðar málsins, geti staðið frammi fyrir fólki og réttlætt afstöðu sína af þekkingu. Þetta er vandinn, að svo stórt mál er svona seint fram komið. Skylda okkar í þinginu er auðvitað að skoða það vel frá öllum hliðum.

Í drögum að skýrslu vinnuhópsins sem fjallaði um málið og setti fram niðurstöðu, sem er grunnurinn að því frumvarpi sem við erum að ræða, kemur fram að helsta leiðarstef vinnuhópsins hafi verið samræming og jöfnuð réttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, að lífeyriskerfið þurfi að vera sjálfbært en til að svo megi vera þurfi hver kynslóð að standa undir eigin lífeyrisréttindum. Og að aldurstengd ávinnsla réttinda verði meginreglan í lífeyriskerfinu og lífeyrisaldur samræmdur. Í tillögu hópsins var lagt til að lífeyrisréttindi verði 76% af meðalævitekjum og miðað við 40 ára eingreiðslu iðgjalda. Til að þessar hugmyndir nái fram að ganga þarf að gera verulegar breytingar á núverandi skipan lífeyrismála, m.a. þarf að hækka iðgjöld í almennu sjóðunum eins og um var samið við endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í upphafi árs 2016 og hækka lífeyristökualdur og breyta út jafnri réttindaávinnslu í aldurstengda hjá opinberu lífeyrissjóðunum.

Þarna er verið að finna leið til að draga saman á milli opinbera kerfisins og þess almenna, hækka iðgjöldin í almennu sjóðunum og hækka lífeyristökualdur og breyta réttindaávinnslu í því opinbera. Það var mikil sátt um þessa framtíðarsýn en aðilar málsins lögðu mikla áherslu á að vandi opinberu sjóðanna yrði leystur um leið og framtíðarskipan lífeyrissjóðsmála yrði lögð fram. Það er nefnilega þannig að tryggingafræðileg staða A-deildar í árslok 2015 var neikvæð um rúma 57 milljarða kr. Það verður að gera breytingar. A-deildin er ekki sjálfbær. Ef breytingarnar verða ekki fram settar mun ekkert annað gerast en að deildin verður áfram rekin með halla, eða þá hitt að iðgjaldið verði hækkað upp í 19,1%, sem þýðir að þá dregst enn í sundur með þessum tveimur kerfum.

Í núverandi kerfi safnast réttindi eftir jafnri réttindaáherslu. Slík áhersla leiðir til þess að krónan sem borguð er inn fyrir starfsmann sem er t.d. 66 ára gefur jafn ríkuleg réttindi og fyrir starfsmann sem er t.d. 20 ára, segir í minnisblaði með frumvarpinu, þrátt fyrir að króna þess yngri eigi eftir að safna ávöxtunum í 47 ár en þess eldri í einungis eitt ár. Þetta leiðir til þess að ungar kynslóðir niðurgreiða réttindi eldri kynslóða. Staðreyndin er sú að eins og staðan er í dag er útilokað að A-deild geti verið sjálfbær meðan deildin er með jafna réttindaáherslu sökum aldurssamsetningar sjóðfélaganna.

Þegar verið var að ræða málin og reyna að finna lausn lögðu félög opinberra starfsmanna á það mikla áherslu og settu í raun þau skilyrði að það yrði ekki hróflað við þegar áunnum réttindum opinberra starfsmanna og bætt yrði fyrir breytingar sem að óbreyttu mundu skerða réttindi sjóðfélaga. Lakari laun á opinberum vinnumarkaði hafi í gegnum tíðina verið réttlætt með betri lífeyrisréttindum og því væri ljóst að jafna þyrfti launamun á milli vinnumarkaða um leið og lífeyrisréttindin væru jöfnuð.

Þarna liggur helsta tortryggnin. Opinberir starfsmenn hugsa með sér: Nú á að breyta lífeyrisréttindunum og jafna leikinn milli opinberra markaðarins og þess almenna, þannig að lífeyriskjörin hjá opinberum starfsmönnum verði verri. Hingað til hafa þau verið metin til launa og það hefur verið réttlæting fyrir því að opinberir starfsmenn hafi haft lægri laun en á almennum vinnumarkaði. Ég man eftir því þegar ég sjálf var í undirbúningi og bakhópi fyrir samninganefnd fyrir kennara fyrir mörgum árum síðan og verið var að landa kjarasamningi. Þá kom alveg skýrt fram að lífeyrisréttindin á þeim tíma voru metin upp á 6%. Þarna liggja erfiðleikarnir og tortryggnin í málinu.

Hins vegar hefur verið bent á að aðstæður í samfélaginu eru þannig að þær bjóða upp á launaskrið á næstu árum. Með þessu gætu opinberir starfsmenn verið að taka þátt í því en það hefur ekki áður verið þannig.

Það hefur lengi verið stefnt að því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum. Einn liður í því er að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Það er bæði gert til að auðvelda samanburð á kjörum hópanna og til að tryggt sé að launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geti flutt sig til á vinnumarkaði og á milli lífeyrissjóða hvenær sem er á starfsævinni án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindaávinnsluna þeirra. Það er ákveðinn kostur, að það séu ekki lífeyrisréttindi sem hamla því að fólk færi sig til í starfi.

Frú forseti. Tíminn líður hratt og málið er stórt. Mig langar að lokum þó að nefna þá háu upphæð sem á að setja inn í kerfið til að gera það sjálfbært núna, úr ríkissjóði og sem einnig á að koma annars staðar frá. Ríkissjóður mun setja tæplega 100 milljarða inn í þetta mál til að það nái fram að ganga og tekur stærsta hlutann líka af kostnaði sveitarfélaganna þarna inn. Það er hægt að gera núna vegna þess að aðstæður ríkissjóðs eru þannig. Eins og segir hér í minnisblaði:

Með hliðsjón af því að raska ekki um of markmiðum um skuldaþróun samkvæmt fimm ára fjármálastefnu stjórnvalda er í stórum dráttum áformað að standa að fjármögnun á fullnustu skuldbindinga vegna A-deildar með þrennu móti. Í fyrsta lagi að framselja eignir til LSR í mynd endurlána ríkissjóðs til LÍN, t.d. um 50 milljarða króna; breytingar á lausafjárstýringu og styrkingu á sjóðsstöðu á árinu gefa svigrúm til að láta af hendi reiðufé, allt að 30 milljarða króna; síðan á að auka beinar skuldir ríkissjóðs með útgáfu verðtryggðs skuldabréfs, allt að 25 milljarða króna.

Þetta er sem sagt hugmyndin um hvernig fjármagna eigi og þetta eru mjög miklir peningar. En það eru líka miklir hagsmunir undir, bæði hjá einstaklingum og eins hjá ríkinu sjálfu.

Þetta mál þarf að fara í góða umræðu og skoðun. Ég er mjög jákvæð gagnvart því. Ég tel að það hafi mikið áunnist með því að koma á þessari samræmingu og í kjölfarið geti fylgt margt gott. En ég skil vel tortryggni ríkisstarfsmanna og þingnefndir þurfa að fara yfir það með stéttarfélögunum, allar þessar hliðar, og geta verið sannfærðir um að forsendurnar séu til þess að taka ákvörðun í málinu. Þetta er stór kerfisbreyting. Ég held að hún muni leiða til góðs. En við verðum að taka um þetta umræðu og það er stuttur tími eftir af þinginu. Hugsanlega er skynsamlegt að láta afgreiðsluna bíða fram yfir kosningar en stíga samt varlega til jarðar, bera virðingu fyrir samkomulaginu sem náðst hefur. Ég hef ekki heyrt á umræðunum hér að meiningin sé að kasta málinu heldur einfaldlega að fá að kynna sér það vel.