145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðu hennar. Hún fór í ræðunni vel yfir málið og mikilvægi þess, sem mér hefur heyrst á okkur sem höfum tekið til máls í þessari umræðu að við séum nokkurn veginn sammála um. Mig langar að byrja á að taka undir með hv. þingmanni um það hversu bagalegt það er hversu seint málið er komið fram. Það er auðvitað ómögulegt að ætla að ljúka umfjöllun þess á tveimur dögum, auk allra annarra þingstarfa sem liggur fyrir að við þurfum einnig að klára áður en þessu þingi verður slitið, eins og á að gera núna á fimmtudaginn samkvæmt starfsáætlun Alþingis.

Það eru gríðarlega háar fjárhæðir sem hér eru undir, 100 milljarðar, og kerfið tekur til óskaplega viðkvæms kerfis, þ.e. framfærslu fólks á efri árum. Ég hefði haldið að hér þyrfti að vanda mjög til verka. Hv. þingmaður talaði um að þetta væri stór kerfisbreyting. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hún sé sammála mér um það að vegna þess að um stóra kerfisbreytingu er að ræða, það er einnig verið að ræða um stóra kerfisbreytingu þegar kemur að almannatryggingum og lífeyrisréttindum sem fólk á rétt á þar, hvort það auki ekki enn á það að vanda þurfi vinnubrögð og að okkur sem þingmönnum (Forseti hringir.) beri skylda til að horfa heildstætt á þessi tvö kerfi og útkomuna sem kerfisbreytingar (Forseti hringir.) kunna að hafa milli almannatryggingahlutans (Forseti hringir.) og kerfisins á almennum vinnumarkaði.