145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er auðvitað mergurinn málsins að við þurfum að hafa tímann og tækifæri til að fara yfir málin. Mér finnst okkur líka bera skylda til þess að hafa góða yfirsýn. Mér finnst raunar að sú skylda eigi einnig að liggja hjá hæstv. ríkisstjórn, að hún hafi einhverja heildarsýn á það hvað er verið að gera í ólíkum ráðuneytum.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann út í það. Nú er í almannatryggingafrumvarpinu gert ráð fyrir því að hefja töku á hálfum lífeyri í því kerfi og hálfum lífeyri í því kerfi sem við ræðum um hér. En það kemur fram í umsögn frá Tryggingastofnun ríkisins að í almannatryggingafrumvarpinu sé texti ákvæðisins afar opinn og í rauninni sé ekkert vitað um það hver útkoman verður af því að fólk hefji hálfa lífeyristöku út úr þessu kerfi. Er ekki vítavert gáleysi að okkur sé ætlað það að samþykkja (Forseti hringir.) þessi tvö frumvörp án þess að sé búið að prufa að samkeyra þetta tvennt saman, þótt ekki sé hugað að öðrum atriðum sem ekki er búið að skoða í samhengi?