145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað partur af okkar vanda að hér erum við með ríkisstjórn sem er ekki starfhæf og störf þingsins hafa því miður laskast einnig vegna þess. Nefndirnar hafa ekki haft tök á því að ljúka störfum og vinna almennilega auk þess sem þingmálin hafa komið allt of seint inn.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að skoða þessi dæmi sem hv. þingmaður nefnir. Þó að við viljum sveigjanleikann, okkur finnist hann góður og að fólk eigi þess kost að fara hægt út af vinnumarkaðnum og hafa einhverja möguleika á að velja þar, þá verður að skoða tengingarnar þarna á milli. Nú fer t.d. þetta frumvarp sem við erum að ræða til efnahags- og viðskiptanefndar, það fer ekki til sömu nefndar og almannatryggingafrumvarpið þannig að það verður að ræða þetta á milli nefnda.