145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja um ráð. Við stöndum frammi fyrir því að tveir og hálfur dagur er eftir af þinginu. Við höfum ekki almennileg fyrirmæli um það hvaða verkefni við þurfum að taka fyrir til að starfsáætlun haldist. Ég spyr virðulegan forseta: Hvernig eigum við að haga okkur? Hvernig eigum við að láta hlutina ganga þannig að ekki sé vaðið yfir þinglegt ferli á skítugum skónum, þannig að Alþingi fái að halda reisn sinni og virðingu, þannig að við fáum að fjalla um þau mál af þeirri virðingu sem þau eiga skilið og að alræðistaktík einkenni það ekki hvernig málum er komið í gegnum þing? Ég biðla til virðulegs forseta um leiðbeiningar um það hvernig við eigum að haga okkur til þess að við getum lokið þessu þingi á tilsettum tíma.