145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér gríðarlega stórt hagsmunamál launafólks í skugga fullkomins upplausnarástands ríkisstjórnar Íslands sem krefst þess þó að málið verði afgreitt nánast án umræðu á Alþingi. Það er staðan í dag. Ég er að koma hér í aðra ræðu frá því fyrir helgi. Þá ræddi ég þetta mál og lýsti yfir ánægju með að samkomulag hefði náðst en ég teldi að þetta væri stórt mál sem skoða þyrfti vel. Ég held að við öll sem hér höfum talað höfum bent á að málið eigi ekki heima í pólitískum skotgröfum. Það er búið að vera í margra ára vinnslu hjá forustufólki samtaka launafólks og fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ef við á Alþingi eigum að taka ákvörðun í svo stóru máli verðum við að geta rökstutt þá ákvörðun okkar fyrir þeim sem í hlut eiga.

Síðan ég hélt ræðu mína á fimmtudaginn hefur okkur borist fjöldi erinda frá fólki af kennarastofum, einstökum fagstéttum og fagfélögum sem eru ósátt við meðferðina á þessu máli. Ég er enginn dómari í þeirri deilu, en það segir okkur bara að fólk er á varðbergi, því að fyrir opinbera starfsmenn hafa hagfelld lífeyrisréttindi verið mikilvægur hluti af launakjörum. Þar hafa stórar kvennastéttir sætt sig við lægri laun vegna starfsöryggis og betri lífeyrissjóðs. Að sjálfsögðu verður fólk áhyggjufullt þegar fara á að samþykkja breytingar á slíku ef það er ekki vel inni í hlutunum.

Við höfum fengið erindi frá ýmsum kennarastofum, sem flestar eru hér í borginni, hefur mér sýnst, þar sem kennarar lýsa áhyggjum af því að Alþingi ætli að fara að samþykkja breytingar á lífeyriskjörum kennara án þess að kennarar hafi fengið kynningu á því frá forustufólki sínu. Ég veit ekki hvernig því er háttað, en ég tek þetta sem dæmi um það sem við stöndum frammi fyrir. Þá höfum við fengið erindi frá Sjúkraliðafélaginu og við höfum séð að lögreglumenn og hjúkrunarfræðingar hafa áhyggjur af þessum málum.

Það sem kemur helst fram í gagnrýninni er einmitt atriði sem við, margir þingmenn, höfum rætt að við þurfum að fara ítarlega í saumana á. Þar eru áhyggjur af því að lífeyrisréttindi nýrra starfsmanna hafi verið skert eða muni verða skert, áhyggjur af því að starfsævi verði lengd hjá kvennastéttum sem gjarnan vinna hlutastörf því að það eru erfiðu störf eins og sjúkraliðastarfið, og hætta að vinna 65 ára. Þær benda hér á að það að fara með eftirlaunaaldur upp í 67 ára aldur sé engin lausn fyrir þennan hóp. Síðan er það gagnrýnt að ábyrgð vinnuveitenda á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna verði afnumin og ekki sé ljóst hvernig jafna eigi launakjör á milli markaða.

Við ræddum hér nokkrir þingmenn á fimmtudaginn kynjavinkilinn og kynslóðavinkilinn á þessu máli. Ég vil taka undir orð margra flokkssystkina minna. Þetta er mikilvægt mál. Þetta er mál sem við verðum að leysa og samkomulagið sem búið er að gera er ákveðinn áfangi. En áður en við fengum þessar aðvaranir vorum við samt mörg að klóra okkur í höfðinu af því að við treystum okkur til að afgreiða svo viðamikil mál án þess að fá að setja okkur almennilega inn í þau. Og nú hafa okkur borist óskir frá launafólki hjá hinu opinbera um að við gefum tækifæri á betri kynningu og betri skoðun á málinu áður en það verður samþykkt. Ég ítreka þá ósk mína hér að þetta mál fari ásamt frumvarpi um almannatryggingar í sérstaka nefnd og að þau verði skoðuð þar (Forseti hringir.) saman. Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða. Þetta eru mál sem við verðum að klára en við verðum að vanda okkur við vinnuna og gera hana í sátt við þá sem í hlut eiga.