145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægt frumvarp sem við erum hér með til umræðu, frumvarp til að breyta lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Lengi hefur verið unnið að þessu verkefni og mjög merkileg vinna hefur átt sér stað. Nefnd var skipuð árið 2011. Á bls. 4 í frumvarpinu segir:

„Viðræður um breytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna hafa farið fram á vettvangi starfshóps um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) sem skipaður var í mars 2011. Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og er meginefni þess byggt á samkomulagi á milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar, um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sem náðist í starfshópnum í september 2016.“

Að þessu hefur verið unnið í mörg ár og ég trúi því og treysti að vel hafi verið unnið. Við höfum oft talað um það hér í þinginu að vinna beri frumvörp betur en oftast er gert og að hafa þurfi samráð við þá sem lögin lúta að áður en frumvörp koma til umfjöllunar í þinginu. Ekki getum við kvartað undan því að það hafi ekki verið gert í þetta sinn, virðulegi forseti. Hitt er samt annað mál að það er mjög bratt, eins og unga fólkið segir, að ætla okkur að afgreiða þetta mál, og í raun hvaða mál sem er, á viku. Þó að jafn vel hafi verið unnið og ég vil trúa að gert hafi verið er það ekkert annað en virðingarleysi við Alþingi Íslendinga að ætla okkur það.

Á endanum, virðulegi forseti, er það þingið sem ber ábyrgðina. Það erum við sem leiðum þetta í lög. Ef einhverjir telja sig bera skarðan hlut frá borði eða eru ekki ánægðir þá erum það við hér sem svörum fyrir það. Það eru ekki viðsemjendurnir, það eru ekki þeir sem stóðu að samningu frumvarpsins, heldur erum það við. Ef það er þannig, virðulegi forseti, að það er hluti af þeim breytingum sem gerðar eru að einn hópur komi betur út en annar hópur ekki eins vel eða jafnvel verr þá erum það við sem á endanum berum ábyrgð á því. Þá erum það við sem svörum fyrir það og þurfum að kunna svörin við því.

Það er þess vegna ekki hægt að bjóða upp á það að við gerum svona mikla kerfisbreytingu á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á þessum tíma. Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um það sem fólk á að lifa á eftir að það hefur lokið starfsævinni. Fólk sem byrjar að vinna um tvítugt lýkur henni eftir 40 ár, 45 eða 47. Yfirleitt byrjar fólk ekki að vinna fyrr en um þrítugt. Við erum að tala um áratugi fram í tímann. Ætlum við að bjóða upp á það að á viku taki Alþingi Íslendinga ákvarðanir af því taginu án þess að geta kynnt sér málin í kjölinn?

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er kerfisbreyting og ég mæli með kerfisbreytingum á sem flestum sviðum. En í kerfisbreytingu af þessu tagi erum við að tala um launakjör eldra fólks, gamals fólks, eftir 30 ár eða þar um bil. Það væri óþolandi ef þingið gæti ekki afgreitt málið samhljóða. Mér fyndist það skelfilegt ef málið yrði keyrt hér í gegn, mál af þessu tagi þar sem um er að ræða lífskjör langt fram í tímann, þegar við treystum okkur ekki öll til að taka ábyrgð á því að þetta sé kerfið sem eigi að vera. Til þess að það megi gerast þurfum við tíma. Við þurfum tíma til að tala saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Þegar málið er kynnt í upphafi eru fyrirsagnirnar þær að þetta sé samkomulag ríkisins og stéttarfélaganna, samkomulag milli BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BHM, sem er Bandalag háskólamanna og KÍ, sem er Kennarasamband Íslands. Þá segir maður auðvitað: Við verðum að taka mikið mark á þessu. En síðan er þetta varla komið fram þegar hávær mótmæli heyrast og í ljós koma, sem ég tek nú ekki síður mark á en háværum mótmælum, áhyggjur af því að ákveðin félög átti sig ekki alveg á hvað þetta þýðir, að margt sé óljóst í þessu, að þetta hafi ekki verið kynnt nógu vel og að fólk viti ekki alveg á hverju það á von. Slík skilaboð koma frá lögreglufélaginu, frá hjúkrunarfræðingum, frá sjúkraþjálfum. Það rignir yfir okkur, virðulegi forseti, skeytum frá kennarastofum og skólum í landinu. Það er því kannski ekki undarlegt að við höfum áhyggjur af þessu.

Stóra málið í þessu virðist vera: Af hverju þarf að afgreiða þetta núna, af hverju má ekki gera það eftir kosningar? Ég hef verið að hugsa um þessar kosningar og menn tala um að það þurfi að gera allt fyrir kosningar eins og ragnarök verði við kosningar. Virðulegi forseti. Ef ragnarök yrðu við kosningar þá þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu meir.

Af hverju þarf að afgreiða þetta fyrir kosningar? Af hverju þarf að afgreiða þetta núna? Jú, það er vegna þess að núna eru peningarnir til. Við höfum vissulega vitað það í mörg ár að við höfum þurft peninga til að tryggja A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Á bls. 14 í frumvarpinu segir:

„Ljóst er að verði frumvarp þetta lögfest þarf að gera ráðstafanir til að leggja LSR til mikla fjármuni, nálægt 100 milljörðum kr.“

Nú segja menn: Nú eigum við þessa peninga og þess vegna þarf að gera þetta núna. En þessir peningar fara ekki neitt, virðulegi forseti, þó að alþingismenn fái að kynna sér þetta mál í þaula. Þeir fara ekki neitt. Þá segja sumir: Jú, jú, nú eru að koma kosningar og þá er freisting fyrir stjórnmálamenn að fara að lofa þessum peningum og þar fram eftir götunum. Ég trúi því ekki að þeir sem predika fyrst og síðast stöðugleika láti það hvarfla að sér að eyða þessum peningum í eitthvað annað en þeir hafa ætlað sér í þetta þó svo að þetta verði ekki samþykkt fyrir kosningar, þó að þingmenn fái að skoða þetta niður í kjölinn.

Ég gef því lítið fyrir það að við þurfum endilega að gera þetta núna vegna þess að við eigum peningana. Í fyrsta lagi vegna þess að við ég vil treysta stjórnmálamönnum og meira að segja þeim stjórnmálamönnum sem nú eru í ríkisstjórn. Ég treysti þeim til þess að fara ekki að eyða þessum peningum í einhverja vitleysu, eins og sagt er, ef þetta mál verður ekki samþykkt fyrir kosningar. Ef við treystum ekki hvert öðru og treystum ekki sjálfum okkur, þá er hægt að setja peningana á bundinn reikning í Seðlabankanum. Við gerðum það þegar gjaldeyrishöftin voru losuð. Þá bundum við peninga útlendinga sem hér áttu peninga inni í bönkum í einhver ár þangað til við ætlum að losa um þau. Við getum alveg bundið þessa peninga ef við treystum ekki sjálfum okkur til að spreða þeim ekki út og suður. Það eru ekki rök, virðulegi forseti. Það eru ekki rök að peningurinn sé til og til þess að við eyðum honum ekki í einhverja vitleysu verðum við að samþykkja þetta núna. Ég tek þeim rökum ekki.

Þetta er mikilvægt mál. Það er mjög ánægjulegt að samkomulag skuli hafa náðst. En ég segi sem þingmaður: Það er mér um megn, virðulegi forseti, að bera ábyrgð á því að hafa málið hér til umfjöllunar í viku, og þó það væri hálfur mánuður, og samþykkja það. Við erum hér að tala um launakjör gamals fólks eftir 20, 30 eða 40 ár. Það gengur ekki að við gerum það á viku. Þar fyrir utan, ég ætla svo sem ekkert að fara út í það, hefur það verið nefnt hér að allt er nokkuð öruggt með þá sem þegar eru í lífeyrissjóðnum, þá sem eru byrjaðir að taka úr lífeyrissjóðnum eða eru inni í kerfinu, en mjög óljóst með þá sem ekki eru inni í kerfinu. Það er mjög óljóst hvort hægt verður að hækka laun opinberra starfsmanna til jafns við almenna launamarkaðinn. Það er ekki einu sinni ljóst hvaða hópar opinberra starfsmanna það yrðu sem þyrfti að hækka meira en aðra.

Því miður eða sem betur fer er þetta frumvarp komið fram og það þarf að skoða það betur, það þarf að þekkja veikleikana í því og það þarf að þekkja styrkleikana í því. Á endanum verða alþingismenn ábyrgir fyrir þessum lögum. Þeir sem sömdu um það, aðilar vinnumarkaðarins, verða aldrei ábyrgir fyrir þessum lögum, það verða alþingismenn. Þess vegna þurfa alþingismenn að fá þann tíma sem þeir þurfa til að geta afgreitt þetta mál öruggir með hvað þeir eru að gera.