145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast svo sem ekkert um að þeir ríkisstjórnarflokkar sem núna sitja við völd vilji kannski einkavæða einhverja þjónustu sem núna er að mestu eða öllu leyti í opinberri þjónustu. En ég trúi þeim ekki til þess að koma því inn í þetta frumvarp. Ég hallast yfirleitt ekki að samsæriskenningum af því taginu. Á hinn bóginn er ekkert skrýtið þó að þær stéttir sem eru lægra launaðar hafi meiri áhyggjur af þessu. Það er náttúrlega að hluta til vegna þess að fólk hefur jafnvel unað við lægri laun af því að lífeyrisréttindi voru góð. Svo þegar á að fara að kippa því til baka allt í einu áttar fólk sig ekki nákvæmlega á hvernig það snertir akkúrat það. Nú er ég ekki búin að lesa frumvarpið það vel að ég kunni það nákvæmlega. En hins vegar var því skotið að mér áðan að t.d. hjá sjúkraliðum, að mér skilst, sé hluti þeirra vangaveltna og ótta, ef ég má nota það orð, breytingin á aldursávinningnum, þar sem það fólk er gjarnan orðið svolítið fullorðið þegar það hefur sjúkraliðastörf. Þegar þessu var skotið að mér þá mundi ég allt í einu að ég átti tvær mágkonur sem voru komnar einhvers staðar á milli fertugs og fimmtugs þegar þær byrjuðu á því starfi, þær eru því miður báðar látnar, (Forseti hringir.) þannig að þetta kemur ekki niður á þeim. En ég (Forseti hringir.) kveikti strax á þessu.